132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:06]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að engin hætta sé á því að við þurfum að fara að flytja inn mjólk því að þannig hefur það verið að við höfum ekki getað framleitt meira en 105 milljónir mjólkurlítra á ári. Verið er að hækka það núna upp í 108 milljón lítra, að mig minnir, en það er ekki vegna þess að annars þurfi að kalla á innflutning. Eins og hv. þingmaður hlýtur að vita hafa menn haft einmitt þær þröngu skorður að hafa ekki getað framleitt eins mikið og þeir hafa viljað og hafa oft og tíðum orðið jafnvel að hella niður mjólk eða senda hana í mjólkurbúin án þess að fá nema lítinn hluta afurðaverðs fyrir mjólkina af því að ekki hefur verið beingreiðsla fyrir henni. Ég held því að hv. þingmaður þurfi ekki að óttast það.

Aðeins til að geta þess hvað varðar beingreiðslur í mjólk þá eru þær afskaplega gegnsæjar og þetta er gegnsætt og gott kerfi. Ríkið veit nákvæmlega hvað það er að kaupa og ég held að það væri ekki gæfuspor að fara í sömu spor og Evrópusambandið gerir, að greiða út á eitthvað ótilgreint. Þetta kerfi okkar hefur verið mjög gott og ég vil minna á að mjólkurafurðir hafa ekki hækkað í verði núna síðustu ár. Tvö til þrjú ár hefur verið sama verð á mjólk og mjólkurafurðum sem bendir til þess að mjólkuriðnaðurinn hefur ákveðið að taka þátt í því að halda við stöðugleika í landinu.