132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:08]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er þá bara á annarri skoðun en samtök bænda sem telja að huga eigi að þessum málum og huga einmitt að hlutfallslegum stærðarmörkum og betra sé að gera það fyrr en seinna.

Mér kemur á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt áhyggjuraddir úti um land yfir samþjöppun á greiðslumarki í bæði mjólk og sauðfé og uppkaup á jörðum, margar jarðir í hendur sama aðila. Mér kemur á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt það.

Hér er verið að leggja til að út frá hagsmunum neytenda, hagsmunum framleiðenda og einnig samkvæmt pólitískum markmiðum stjórnvalda um byggð og búsetu í sveitum verði hugað að setningu laga sem takmarka hlutfallslega stærð búa. Ég bendi á, frú forseti, hvað gerðist ef mjólkurframleiðslan væri komin að stórum hluta á nokkur stór bú og síðan kæmu þar upp veikindi þannig að það þyrfti að loka. Ég bendi á að reglurnar núna eru þannig að komi upp eitthvað á búi getur búið ekki lagt inn í heila viku og það getur haft áhrif bæði á framboð vörunnar til neytenda og vinnslu viðkomandi mjólkurstöðvar.

Það er einmitt þetta öryggi neytenda sem ég tel að bændur og landbúnaðarframleiðsla eigi að hafa í fyrirrúmi. Þess vegna er þetta frumvarp flutt.