132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:12]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir stuðningsorð hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og veit að hann í starfi sínu sem heilbrigðisfulltrúi þekkir líka þann aðbúnað sem þarf að vera við framleiðslu á matvörum og þau umhverfisatriði sem þar þarf að taka tillit til.

Það sem lagt er til varðandi mjólkurframleiðsluna er að eitt bú á einum stað fari ekki yfir nálægt 1% af heildargreiðslumarkinu sem núna er um 105 milljónir lítra. Reyndar er búið að auka heimildina núna upp í 114, en það er bara tímabundið, það er ekki hluti af samningnum við ríkið, heldur eru það afurðastöðvarnar sem greiða fyrir þá umframframleiðslu, þ.e. sem er umfram þann samning.

Það má vel vera að 1% sé of hátt eða of lágt. Ég er ekki hér að gefa neinn endanlegan dóm um það. Ég legg þetta til en færa má rök fyrir einhverju öðru, 1,1, 1,2, 1,5, 0,8, það má velta því fyrir sér. En meginmálið er: Til að uppfylla kröfur um öryggi gagnvart neytendum, um gæðaöryggi vörunnar, um öryggi á umhverfisþáttum í framleiðslu vörunnar og að tryggja byggð og búsetu í sveitum og þar með líka framleiðsluöryggið, þá þarf að setja þarna mörk.