132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:16]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru tvö aðskilin atriði sem hv. þingmaður var að ræða um, annars vegar um stuðning ríkisins eða beingreiðslurnar, sem eru framleiðslutengdar, og hins vegar hvað rétt væri að binda í starfsleyfum um stærð búa á einum stað. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að magntengdar beingreiðslur af hálfu ríkisins til mjólkurframleiðslunnar ættu ekki að vera upp í milljón lítra, alls ekki. Ég hef nefnt að þar gætum við verið að tala um 200–300 þúsund lítra og síðan hyrfi það við einhvern ákveðinn lítrafjölda sem mönnum þætti henta miðað við hin pólitísku markmið sem sett eru. En framleiðslueining á sama stað ætti ekki að fara hærra en þetta og ég bendi á hversu varasamt þetta reyndist t.d. í svínaræktinni þegar svínabúin fóru á hausinn hvert á fætur öðru og bankar urðu að fara að reka þau til þess að tryggja kjöt á markaði við aðstæður sem við vorum heldur ekki ásátt með, þá fóru þeir að greiða niður kjötið.

Þessi mörk geta verið breytileg eftir búgrein. Það getur verið rétt að það sé einhver önnur prósentutala við sauðfjárframleiðslu, önnur prósentutala við svínakjötsframleiðslu o.s.frv. En það þarf að setja mörk til að tryggja hagsmuni neytenda, tryggja að þeir fái örugglega á hverjum tíma þessa vöru af sem bestum gæðum og á sem besta verðinu. Það er það sem þarf að tryggja, frú forseti.