132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:33]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa áhuga hv. þm. Drífu Hjartardóttur á landbúnaði og því að vilja styðja hann af öllum þeim mætti sem hún og við megum hér í þinginu. Ég vil þó spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki hin pólitíska stefna sem við höfum m.a. miðað ríkisþátttöku okkar við, að fjölskyldubú séu grunneiningin í landbúnaði, a.m.k. í nautgripa- og sauðfjárrækt.

Ég vil spyrja þingmanninn annarrar spurningar. Erum við ekki sammála um að hin pólitíska yfirlýsing um að fjölskyldubúskapurinn sé grunneining sé engin tilviljun? Er þetta ekki svo að teknu tilliti til hagsmuna neytenda, gæða og öryggis framleiðslunnar, hagsmuna framleiðenda, umhverfisþáttanna og byggða- og búsetutengdra atriða, þ.e. allra þessara atriða? Miðað við það sem ég þekki til þessa máls eru alla vega þessi atriði öll lögð til grundvallar hinni pólitísku stefnumörkun um að þau skuli vera fjölskyldubú. Hér er einmitt verið að leggja til að setja þessum markmiðum mörk með öryggissjónarmið neytenda og framleiðenda í huga.