132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:35]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er sjálfsagt mál að ræða hér hvað búin eiga að vera stór, hvort þau eiga að vera stór eða lítil. Þessi umræða er afskaplega eðlileg og sitt sýnist hverjum.

Fjölskyldubú eru mjög mismunandi. Það sem einn lætur sér nægja gerir annar ekki. Þetta er alltaf álitamál. Ég mundi gjarnan vilja spyrja hv. þingmann á móti um það hvaða stærðartakmörk hann vilji hafa á svínabúum og hvaða stærðartakmörk hann vilji hafa á fjárbúum. Ég held að það sé mjög varhugavert að setja svona stærðartakmarkanir þegar þess er ekki þörf. Ég tel að óþarft sé að gera þetta, ótímabært og að menn eigi ekki að vera með þessa takmörkun á þessari stundu. Það er langt frá því að það sé tímabært.