132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:45]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulega frú forseti. Ég vil þakka þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta mikilsverða mál sem lýtur að framleiðslu landbúnaðarafurða og tengdum þáttum, stuðningi ríkisins við byggð og búsetu í sveitum. Af umræðunni er ljóst að það er fyllilega tímabært, eins og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir kom inn á, að málið sé rætt á þinginu og fari út til umsagnar. Þá getum við metið viðbrögðin sem það fær. Ýmis samtök bænda hafa ályktað um að taka beri á málinu.

Við höfum heyrt af ótta framleiðenda, neytenda og íbúa landsbyggðarinnar, við þá miklu samþjöppun sem nú á sér stað í þessum framleiðslugreinum: sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu, svínarækt. Menn óttast að sú samþjöppun geti komið neytendum illa með óöryggi um framleiðsluna og einnig pólitískum markmiðum um byggð og búsetu í sveitum, öfluga byggð og búsetu um allt land. Hin pólitísku markmið gætu líka orðið að víkja ef þetta heldur þannig áfram.

Í samfélaginu, úti um hinar dreifðu byggðir, er ótti við þá þróun sem á sér stað. Jafnframt er líka hægt að taka undir það sem hefur áður verið nefnt, að íslenskur landbúnaður á mörg sóknarfæri. Þau þurfum við líka að standa vörð um og gefa svigrúm. Þetta frumvarp miðar að því, frú forseti.