132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Nýskipan í starfs- og fjöltækninámi.

15. mál
[18:47]
Hlusta

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um nýskipan í starfs- og fjöltækninámi. Þar segir:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa í starfshóp fulltrúa þingflokkanna, atvinnulífsins og skólasamfélagsins sem vinni tillögur um átak til að efla starfsnám í framhaldsskólum, um stofnun nýrra, styttri starfsnámsbrauta og um stofnun fjöltækninámsbrauta innan tiltekinna fjölbrautaskóla.“

Þetta mál flytja auk mín þó nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar. Við höfum áður flutt mál um eflingu verknámsins, eflingu starfsnámsbrauta innan framhaldsskólanna með fjölgun og eflingu styttri námsbrauta með það að markmiði. Við viljum fjölga þeim sem það nám sækja og minnka með því brottfall. Við viljum að fleiri fari í starfsnám og finni sig í því námi í stað þess að hætta eða útskrifast með bóknám sem þeir byggja aldrei ofan á. Einnig viljum við auðvelda fólki að bæta við fyrri menntun sína síðar á ævinni. Það tengist líka fullorðinsfræðslu, nýjum námstækifærum fyrir fullorðna með stutta skólagöngu sem hafa kannski ekki lokið annarri formlegri skólagöngu en grunnskólanámi. Allt fellur þetta í eina voð. Við flytjum í haust nokkur þingmál af þessu tagi, t.d. þingsályktun um heildarlöggjöf um fullorðinsfræðsluna, annað mál um lagaumhverfi fræðslunetanna í landinu og einnig sérstakt mál um nýtt tækifæri í námsframboði fyrir fullorðna.

Markmið tillögunnar eru m.a. að efla starfsnám verulega, fjölga valkostum iðnmenntaðra og fólks með styttri formlega skólagöngu til að bæta við menntun sína og draga úr brottfalli í framhaldsskólum. Enn fremur að stofna styttri námsbrautir sem eru þeirrar gerðar að nemendur geta alltaf bætt nýju námi ofan á, eyða úreltri aðgreiningu milli verknáms og bóknáms. Sú skipting hefur lengi háð íslensku skólakerfi og íslenskum framhaldsskóla. Hin rótgróna aðgreining á milli bóknáms og verknáms hefur valdið því að miklu fleiri velja sér bóknám en verknám og hætta námi, falla brott sem kallað er, áður en þeir ljúka námi í stað þess að geta valið úr úrvali starfsnámsbrauta.

Við viljum endurskoða samsetningu náms í grunnskólum með tilliti til verknáms, efla framhaldsskólastigið markvisst og tryggja nægjanlegt framboð verkmenntaðs fólks á vinnumarkaði. Með starfsnámi, sem er yfirheiti, er átt við nám sem fellur undir iðn-, verk- og listnám hvers konar í framhaldsskólum. „Starfsnám“ er lipurt orð yfir allar greinarnar.

Við viljum einnig endurskoða reiknilíkanið sem er notað til að deila út fjármagni til framhaldsskólanna og hefur m.a. gert það að verkum að fjölda umsækjenda sem hyggst snúa aftur til náms er vísað frá skólunum vegna fjárskorts þeirra af hálfu ríkisvaldsins. Sú dæmalausa staða hefur komið upp í haust og í fyrrahaust að talsverðum fjölda nemenda — tölurnar liggja ekki almennilega fyrir vegna þess að skráningarkerfið er ekki nógu vel samræmt — sem ætlaði að snúa aftur til náms, sem vildi snúa aftur í framhaldsskóla, hafði einhvern tíma hætt, gert hlé á námi eða fallið á brott, eins og stundum er sagt, hefur verið vísað frá. Í stað þess að gera allt sem hægt er að gera til að hvetja fólk til að snúa aftur í skólana og stuðla að því að það efli og bæti við skólagöngu sína er því vísað frá. Það undarlega ástand hefur komið upp í framhaldsskólum að vegna fjárskorts hafa þeir ekki getað tekið við miklum fjölda nemenda. Einhvern veginn hefur ekki verið gert ráð fyrir hinum stóru árgöngum sem komið hafa í skólana á síðustu árum.

Við teljum áríðandi að efla verk- og tæknimenntun í landinu. Það er glænýtt í þessu þingmáli að það fjallar um fjöltækninám, það sem heitir „polytechnic“ á ensku. Fjöltækninám er kannski ekki gangsætt heiti yfir námið en það er notað hér og hefur bæði verið notað af Alþýðusambandinu í menntastefnumótun þeirra sem og í drögum að stjórnmálaályktunum í starfi framtíðarhóps Samfylkingarinnar. Þar var hugtakið notað. Við sóttum að sjálfsögðu í smiðju Alþýðusambands Íslands, framtíðarhópsins og fleiri við vinnslu málsins.

Fjöltækninám er mikilvægt og merkilegt námsstig, ef svo má segja, sem tengist mjög frumgreinadeildinni sem til var og starfrækt við Tækniháskólann, áður en hann rann inn í Háskólann í Reykjavík. Sú merkilega námsbraut lagðist af að hluta þótt fyrirheit hafi verið gefin um það af stjórnvöldum að halda úti einhvers konar fornámsbraut eða grunndeild. Viðskiptaháskólinn á Bifröst hefur verið með slíkt nám þar sem þeir sem ekki hafa lokið stúdentsprófi geta lokið því áður en þeir hefja formlegt nám í öðru við skólann. Við viljum marka þessu skýran bás enda er þetta mjög mikilvægur þáttur í menntakerfinu.

Þegar við, nokkrir fulltrúar Samfylkingarinnar, heimsóttum Iðnskólann í Reykjavík síðasta vetur — hittum þar Baldur Gíslason skólameistara, Hauk Má Haraldsson í Iðnskólanum og fleiri öfluga fulltrúa þess merkilega og rótgróna skóla — kom fram ríkur vilji hjá þeim til að stofna slíka deild við Iðnskólann, deild sem mundi falla undir fjöltækninám. Ég ætla að rekja stuttlega hvað við eigum nákvæmlega við með fjöltækninámi.

Við teljum áríðandi að efla verkmenntun og koma á fót fjöltækninámi á sérstökum námsbrautum, m.a. til að auka framboð á fjölbreyttu verk- og tækninámi að loknum framhaldsskóla. Fjöltækninám er skólastig sem tekur við af framhaldsskóla og gegnir m.a. hlutverki frumgreinadeilda fyrir þá sem hafa lokið verknámi, eða starfsnámi hvers konar, en ekki stúdentsprófi. Við teljum að meta eigi starfsreynslu fólks á vinnumarkaði og óformlegt nám til formlegs náms þegar menn vilja hefja nám á nýjan leik þannig að stúdentspróf sé ekki sá mælikvarði sem notaður er til að sigta fólk inn í háskólana, hvaða nöfnum sem þeir nefnast. Háskólarnir eru fjölskrúðugir á Íslandi en við búum við þetta eina heiti „háskóli“ yfir skólastig sem á erlendum tungum flokkast jafnvel í nokkur heiti.

Fjöltækninám er skólastig sem tekur við af framhaldsskóla og gegnir m.a. hlutverki frumgreinadeilda fyrir þá sem lokið hafa einhvers konar starfsnámi. Með slíku námi teljum við að gefist tækifæri til mikillar sóknar í starfs- og tæknimenntun þar sem iðnmenntuðu fólki og öðrum með styttri formlega skólagöngu að baki opnast greið leið til að bæta við menntun sína.

Lítil þróun hefur verið í almennu verk- og tækninámi að loknum framhaldsskóla. Að þessu leyti hefur fjölbreytni í framboði á námi að loknum framhaldsskóla verið takmörkuð. Þegar Tækniháskólinn var sameinaður Háskólanum í Reykjavík ræddum við margítrekað um þetta og bentum sérstaklega á það, í umræðunum á hinu háa Alþingi í fyrravetur, að tryggja yrði starfsemi slíkrar frumgreinadeildar sem starfrækt var við Tækniháskólann.

Til að efla fjöltækninám og háskólastigin er mikilvægt að auka fjölbreytni varðandi námsleiðir þannig að sem flestir finni sér nám við hæfi. Sérstaklega ber að skoða með hvaða hætti megi byggja upp fjöltækniskóla sem bjóði upp á fjölbreytt verk- og starfsnám að loknum framhaldsskóla. Slíkt nám gæti hentað stórum hópi nemenda og gagnast fjölmörgum starfs- og atvinnugrein um, bæði hefðbundnum og nýjum t.d. þeim sem tengjast vaxtargreinum í verslun og þjónustu af ýmsu tagi.

Ég vísaði áðan í mál um ný tækifæri til handa þeim sem styttri skólagöngu hafa að baki sem mælt var fyrir í síðustu viku. Þá kom fram að 40 þúsund Íslendingar á vinnumarkaði búa ekki að annarri formlegri menntun en grunnskólamenntun. Það er gífurlega stór hópur fólks á vinnumarkaði og verulegur fjöldi þess er úti á landi. Það hefur komið fram í umfjöllun ýmissa þingmanna Samfylkingarinnar og kemur kannski nánar fram í umræðunum á eftir. Slíkt nám mundi því henta stórum hópi nemenda en til þess þarf gagngerar breytingar, ný námstækifæri fyrir fullorðna og viðunandi lagaumhverfi fyrir fræðslunetin í landinu. Þau eru í uppnámi út af fjárskorti og mismunun á milli landsvæða. Við viljum sérstaklega tengja þetta vaxtargreinum í verslun og þjónustu af ýmsu tagi.

Tryggja þarf fjölbreyttari aðgangsmöguleika að háskólastiginu þannig að viðurkenndar verið ólíkar leiðir að háskólanámi, svo framarlega sem eðlilegum kröfum um þekkingu og reynslu sé mætt. Hér er mikilvægt að viðurkennt verði að hægt sé að fara ólíkar leiðir að sama marki, með formlegu stúdentsprófi eða þeirri leið sem hér um ræðir, og að nemendahópur með ólíkan bakgrunn og ólíka reynslu geti auðgað skólastarfið og skilað meiri verðmætum. Setja þarf skilgreind markmið fyrir þessi skólastig um magn og gæði þar sem m.a. verði tekið á framboði á námi, fjölda nemenda og minna brottfalli úr námi. Öflugt fjöltækninám, öflug frumgreinadeild, t.d. við Iðnskólann í Reykjavík og fleiri skóla, m.a. öflugustu fjölbrautaskólana úti á landi þar sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt að námsframboðið sé gott. Upp á slíka fjöltækninámsbraut væri boðið í öllum stóru skólunum í hverjum landshluta fyrir sig þannig að nemendur þar eigi ekki síðri aðgang að náminu en nemendur á höfuðborgarsvæðinu.

Eitt af því sem við leggjum sérstaklega til í þingsályktunartillögu okkar er að starfshópurinn fari í að útfæra hvernig slíkum fjöltækninámsbrautum, frumgreinadeildum, verði komið á fót við tiltekna fjölbrautaskóla og verkmenntaskóla á Íslandi: Iðnskólann í Reykjavík, Verkmenntaskólann á Akureyri, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum og fleiri slíka skóla. Námið standi til boða í öllum landshlutum og landsvæðum verði ekki með neinum hætti mismunað í aðgangi að fjöltækninámsbrautum. Slíkar námsbrautir eru að mörgu leyti jafnmikilvægar og framhaldsskólinn sjálfur þar sem námið höfðar til mjög margra. Því nær sem námið er fólkinu því meiri líkur eru á að menn nýti sér það. Það er ómögulegt ástand að slíkar deildir séu einungis starfræktar við sjálfstætt rekna háskóla eins og Háskólann í Reykjavík og Viðskiptaháskólann á Bifröst, sem eru ekki opinberir skólar.

Eftir að Háskóli Íslands var fjársveltur til þess tjóns sem orðið hefur síðustu tvö til þrjú ár hefur hann beitt öllum brögðum sem honum er leyfilegt að beita til að takmarka fjölda nemenda í skólanum, beita fjöldatakmörkunum án þess að sú aðferð hafi verið samþykkt. Ein af þeim fjöldatakmörkunum er að veita þeim nemendum ekki aðgengi að skólanum, þ.e. nýta ekki undanþáguheimild skólans til að taka inn nemendur sem eru ekki með formleg stúdentspróf. Þessa heimild hefur háskólinn ekki nýtt nema að litlu leyti á síðustu árum. Hundruðum hefur því verið meinað að sækja nám við Háskóla Íslands á þeim forsendum, ekki það að yfirvöld eða stjórnendur háskólans vilji meina fólki sem ekki hefur stúdentspróf að nema við skólann heldur hafa þeir þurft að grípa til örþrifaráða til að takmarka fjölda nemenda við skólann.

Fjöltækninámsbrautir yrðu mikilvæg viðbót í skólakerfi okkar, sérstaklega til að svara eftirspurninni eftir að Tækniháskólinn lauk starfi sínu sem slíkur. Við komum inn á margt annað í þessari tillögu. Ég kem kannski inn á það síðar í umræðunni. Eitt af því er hátt brottfall. Samkvæmt opinberum tölum útskrifast innan við 70% íslenskra framhaldsskólanema en meðaltalið er 82% innan OECD-ríkjanna. Yfir 90% af hverjum árgangi útskrifast í Svíþjóð en einungis 70% á Íslandi. Þetta mikla brottfall er eitt af okkar stóru vandamálum sem má að hluta rekja til lítils framboðs á starfsnámi og styttri námsbrautum. Margt fleira kemur til, t.d. skortur á námsráðgjöf bæði í grunn- og framhaldsskólum og lítil kynning á kostum verknámsins.

Það er mikilvægt í þessu sambandi, um leið og við eflum starfsnám og byggjum upp við skólana, að efla námsráðgjöfina í grunn- og framhaldsskólunum. Lítil kynning hefur átt sér stað á kostum verknámsins. Eins og ég kom inn á í upphafi er viðhorf margra til verknáms og starfsnáms mjög brenglað, mjög skakkt. Þess vegna er mikilvægt að auka námsráðgjöf í framhaldsskólunum en með því móti væri hægt að stemma að einhverju leyti stigu við brottfallinu.

Ég kemst ekki lengra í blábyrjun málsins en mun fylgja því betur eftir síðar.