132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Nýskipan í starfs- og fjöltækninámi.

15. mál
[19:02]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Á meðan 40% þeirra sem eru á vinnumarkaði hafa aðeins lokið grunnskólaprófi eða minna erum við Íslendingar á rangri braut í menntamálum og á meðan brottfall í íslenskum skólum er jafnmikið og raun ber vitni, eins og rakið var hér áðan, erum við á rangri braut.

Þessari þingsályktunartillögu sem hv. þm. Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, fylgdi úr hlaði fyrir hönd nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar er ætlað að vera eitt af þeim atriðum sem gætu ráðið bót á þeirri stöðu sem ég lýsti áðan. Þingsályktunartillögunni er líka ætlað að stuðla að því að hæfileikar Íslendinga nýtist betur en þeir gera í dag þegar jafnmargir og raun ber vitni fá ekki menntun við hæfi. Hún mun örugglega stuðla að því að sjálfsmat fólks verður betra en það er fátt eins óhollt nokkurri manneskju og að þurfa að hrekjast úr námi. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk bíður þess varla bætur ef það hefur ekki getað lokið skólanámi og mjög margir treysta sér ekki til að leggja í hann aftur, ef svo má segja, vegna þess að þeir hafa ekki fengið viðfangsefni við hæfi.

Íslenskt samfélag þarfnast fólks sem er menntað á fjölbreyttan hátt. Við höfum aftur á móti stöðugt verið að þrengja möguleika fólks til að afla sér fjölbreyttrar menntunar. Það gerðist m.a. þegar við breyttum lögum um framhaldsskóla á þann veg að framhaldsskólum landsins var gert sífellt erfiðara að bjóða upp á verknám. Það nám hefur flust meira og minna til Reykjavíkur eða Akureyrar og lagabreytingunni var beinlínis ætlað að flytja námið frá skólunum vítt og breitt um landið til stærri skóla á þessum tveimur svæðum. Það var rökstutt með því að slíkt nám þyrfti svo flókinn tækjabúnað að það væri aðeins hægt að koma honum upp á fáeinum stöðum.

Staðreyndin er hins vegar sú að hægt er að kenna fjölmargar greinar án þess að hafa mjög mikinn tækjabúnað við hendina og nefni ég þar bara hárgreiðslu sem dæmi. Eitt af því sem fram kom í heimsókn okkar í Iðnskólann í Reykjavík á síðasta vetri var að nemendur úr Reykjavík fá ekki aðgang nema að takmörkuðu leyti vegna þess að nemendur utan af landi þurfa að fá aðgang líka og það er aðeins hægt að læra hárgreiðslu í Reykjavík. Hvað mælir á móti því að hægt sé að læra til hárgreiðslu eða til bakara, eins og hægt var á Sauðárkróki í mínu ungdæmi, á fleiri stöðum en í Reykjavík? Þetta er bara örlítið dæmi um hvernig búið er að snúa málefnum framhaldsskólans til verri vegar. Skólamönnum finnst að með þeirri styttingu sem verið er að boða í framhaldsskólanum sé enn verið að snúa til verri vegar og það er ákaflega vont mál

Það sem kynnt er í tillögunni er að bjóða upp á fleiri námsmöguleika fyrir fólk þannig að það geti nýtt sér og ræktað þá hæfileika og hæfni sem það býr yfir sjálfu sér og þjóðfélaginu til hagsbóta.

Eins og ég sagði áðan hefur mjög hátt hlutfall af vinnuaflinu hér á landi ekki átt þess kost að sækja sér menntun eða hefur hrakist úr námi og eitt af því sem við þurfum að sinna er að bjóða þessu fólki upp á annað tækifæri til náms og reyna að tryggja að sú reynsla sem það hefur aflað sér úti á vinnumarkaðnum utan skóla sé metin að verðleikum. Unnið er að því í samvinnu við ráðuneytið, þ.e. ráðuneytið hefur reyndar úthýst þeirri vinnu, að komið verði upp ákveðnu matskerfi þannig að fólk sem ekki hefur lokið námi geti átt greiða leið inn í skóla aftur. Það er eitt af því sem ég held að reki enn á eftir því að boðið verði upp á fjölbreyttara námsframboð en nú er.

Staðreyndin er líka sú, frú forseti, að fjölmargir þeirra sem hefja iðnnám í dag treysta sér ekki í sveinspróf þegar upp er staðið vegna þess að þeir treysta sér ekki til að taka próf í tilteknum bóklegum greinum. Spurningin er hvort við verðum ekki að skoða einmitt þann þátt mjög nákvæmlega þannig að sú kunnátta sem fólk hefur aflað sér geti nýst því og fólk fái réttindi enda þótt það geti ekki leyst þung próf í stærðfræði eða svarað dönskuprófi upp á háa einkunn. Ég held að það hljóti að vera hægt og hagkvæmt.

Það er fagnaðarefni að þessi tillaga til þingsályktunar hafi fengist rædd á Alþingi og henni verður væntanlega vísað til menntamálanefndar til umsagnar þar.