132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Nýskipan í starfs- og fjöltækninámi.

15. mál
[19:34]
Hlusta

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í prýðilegri umræðu um framhaldsskólann og starfsmenntun innan hans.

Ég vil koma sérstaklega að máli sem tengist því mjög að efla framhaldsskólann sem slíkan, t.d. styttri námsbrautir innan hans, starfsnámið og stofnun nýrra námsbrauta. Það voru fyrirætlanir stjórnvalda frá því bæði í fyrra og hittiðfyrra og gott ef ekki hafa verið gerðar þrjár atlögur að málinu um að stytta stúdentsprófið með sérstakri tillögugerð um að skera einn vetur aftan af bóknámsskólunum og í rauninni gengisfella stúdentsprófið sem slíkt í einingafjölda og uppbyggingu til að spara peninga í skólakerfinu, til að flýta nemendum í gegnum framhaldsskólann, til að koma fleirum í gegn fyrir miklu minni peninga og spara hundruð milljóna á hverju einasta ári. Þannig átti að því er virtist að mæta nemendafjölgun í framhaldsskólunum sem fólust í stærri árgöngum og því að margir vildu snúa til baka og taka upp þar sem frá var horfið, þar sem þræðinum var sleppt fyrir kannski mörgum árum og hefja nám á nýjan leik.

Þessu átti ekki að mæta með því að auka framlög til framhaldsskólanna heldur með því að gengisfella stúdentsprófið, stytta stúdentsprófið með þeim aðgerðum sem fyrst voru kynntar í skýrslu starfshóps á vegum þáverandi menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrichs, sem nú er sendiherra í París. Síðan var gerð önnur atlaga í fallegri búningi og flottari skýrslu á vegum starfshóps hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þegar grannt var skoðað og betur að gáð var sú tillaga jafnóheppileg, ómöguleg og óframkvæmanleg og sú fyrri sem hafði komið fram árinu áður.

Sem betur fer mættu þessar tillögugerðir mikilli andstöðu strax, bæði í skólasamfélaginu og meðal þingmanna á Alþingi Íslendinga sem áhuga hafa á skólamálum og vilja framhaldsskólanum og skólakerfinu okkar vel og vaka yfir því. Þar af leiðandi kom aldrei fram margboðað þingmál um að stytta framhaldsskóla og stytta nám til stúdentsprófs með þeim hætti sem lagt var til í skýrslu starfshópsins. Hæstv. menntamálaráðherra var síðan spurð af þeim sem hér stendur í febrúar eða mars á þessu ári hvort von væri á þingmáli sem lyti að því að stytta námið, byggðu á tillögunni og sagði hæstv. ráðherra að málið kæmi fram.

Eftir það var haldinn aðalfundur Félags framhaldsskólakennara sem gagnrýndu tillögurnar mjög harkalega, tóku mjög undir málflutning okkar í stjórnarandstöðunni sem höfðum fjallað um málið og aldrei kom málið frá hæstv. ráðherra. Hvort það kemur fram í vetur á eftir að koma í ljós. En ég vona að það komi aldrei fram aftur af því að þar var verið á alrangri braut. Það sem rennir stoðum undir að málið komi aldrei fram aftur er landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins sem ég las mér til skemmtunar í dag.

Þar eru margar dæmalausar ályktanir í mörgum málaflokkum. Ég ætla ekki að fjalla um tillöguna um að afnema málskotsrétt forseta Íslands, eins og lagt er til í einni ályktuninni, heldur halda mig við skóla- og fræðslumálin og framhaldsskólann. Eins og ég sagði áðan hafa tveir síðustu menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins boðað tillögur og kynnt starfshópatillögur um að stytta stúdentsprófið og þar með að mínu mati að stórlaska framhaldsskólann, stórlaska stúdentsprófið og gengisfella stúdentsprófið mjög rækilega. En það sem rennir stoðum undir að þessi mál séu ekki á leiðinni er stefnumið Sjálfstæðisflokksins frá því á landsfundinum um daginn.

Þar segir, með leyfi forseta, í ályktun um skóla- og fræðslumál, undirkafli framhaldsskóli:

„Á undanförnum árum hefur heildartími náms í grunnskóla verið lengdur til muna sem gefur tækifæri til styttingar heildarnámstíma til stúdentsprófs. Landsfundur leggur áherslu á að sjálfstæði framhaldsskóla verði tryggt …“ Síðan segir: „Fagnaðarefni er hve framhaldsskólar eru tilbúnir til þess að bjóða nemendum á grunnskólastigi áfanga á framhaldsskólastigi og flýta þannig fyrir námslokum þeirra nemenda sem kjósa að útskrifast fyrr eða taka nám sitt með auknum hraða.“

Þetta tek ég undir og þessu höfum við þingmenn Samfylkingarinnar mælt mjög fyrir, að sveigjanleiki á milli skólastiga verði aukinn. Það sé leiðin til að stytta námið, fjölga þeim sem útskrifast fyrr úr framhaldsskólanum. Við eigum að stefna að því að miklu fleiri útskrifist með stúdentspróf fyrr en þeir gera núna, 18, 19 ára.

Áfram segir í ályktuninni:

„Þessi fljótandi skil á milli skólastiga eru í anda einstaklingsmiðaðs náms … Þá leggur landsfundur til að samræmd stúdentspróf verði lögð niður.“ Sem eru líka tíðindi af því að hæstv. menntamálaráðherra hefur nú ekki léð máls á því hingað til.

Þetta tengist því þingmáli sem hér er að því leyti að ef efla á skólana og nám innan þeirra, þ.e. styttri námsbrautir og starfsnámið, þá mundi það ekki ganga eftir ef stytta ætti námið og laska það með þeim hætti sem til var lagt í tillögunum og þar var aldrei fjallað á neinn hátt um verknámið. Ekki var tekið á því hvort það ætti þá að styttast líka eða hvað, þetta stefndi því í óefni.

En við leggjum mikla áherslu á að mikilvæg viðbót við framhaldsskólamenntun okkar sé fjölbreytt framboð á styttri námsbrautum í ýmsum starfsgreinum með þjónustu og öðrum störfum sem heyra ekki undir neinar faggreinar og eru miðaðar við að leið fólks sé alltaf greið til að bæta við nýjum námsgreinum ofan á sitt fyrra nám. Nemendur geti alltaf með greiðum og augljósum hætti bætt við nýju námi. Dyrnar í skólann þurfa alltaf að vera opnar og námið þannig sniðið að auðvelt sé að byggja ofan á það. Taki nemandi stutta, tveggja til þriggja anna, starfsnámsbraut og öðlist ákveðin réttindi sé leiðin alltaf greið fyrir hann aftur inn í skólann til að bæta ofan á námið og öðlast meiri réttindi, hvort sem því námi lýkur svo með stúdentsprófi, fjöltækninámi og síðar háskólanámi eða tækniskólanámi, það fer allt eftir aðstæðum. Framboð á slíkum námsbrautum mundi að mínu mati valda miklum breytingum fyrir marga unga nemendur sem eru óráðnir og óákveðnir og óar kannski við því að binda sig við lengra hefðbundið starfsnám eða hafa ekki áhuga eða aðstæður til að ljúka hefðbundnu stúdentsprófi og sjá kannski ekki fram á að ljúka slíku námi enda hafi þeir ekki áhuga á því.

Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi í upphafi ræðu sinnar er skortur á iðnaðarmönnum innan ýmissa faggreina. Þeir sem reka mörg af okkar framsæknustu fyrirtækjum í dag, eins og Marel og Össur og fleiri fyrirtæki, og byggja að mjög stórum hluta og kannski að mestu leyti á annars vegar verkmenntuðu fólki, starfsmenntuðu fólki, og hins vegar tæknimönnum og verkfræðingum, byggja á starfsmenntun hvers konar, þeir vita allir og sjá fram á alvarlegan skort ekki síst í þeim iðngreinum sem teljast til hinna hefðbundnu gömlu iðngreina eins og málmiðnaðarmanna, trésmiða, rafiðnaðarmanna og fleiri slíkra.

Vandi starfsmenntunarinnar lýsir sér m.a. í því að aðsókn að mörgum greinanna hefur minnkað og skortur á fagmönnum í einstökum greinum, eins og járn- og málmiðnaði blasir við. Hefur skólastjóri Iðnskólans, Baldur Gíslason, einnig fjallað sérstaklega um að allt of fáir innritist í t.d. járn- og málmiðnaðargreinarnar og verði ekki gert sérstakt átak til þess að efla starfsnámið og kynna það fyrir nemendum grunnskólanna, sérstakar, einstakar greinar, þá horfi til verulegra vandræða. Ef fer að skorta fólk í þessar undirstöðugreinar í allri okkar samfélagsgerð horfir illa og samfélagið lendir í vanda.

Hætt er að mörgu leyti að kenna verknámið á landsbyggðinni, eins og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir nefndi áðan. Heilu greinarnar hafa verið lagðar af í kennslu við marga skóla úti á landi, eins og t.d. í bílgreinum hvers konar. Mér skildist í heimsókn í Verkmenntaskólann á Akureyri til Hjalta Jóns Sveinssonar fyrir um tveimur árum að bíliðngreinarnar hefðu lagst þar af, þær væru einfaldlega svo dýrar og miklu ódýrara væri að halda úti ýmsum öðrum greinum. Skólinn fengi ekki peninga til að kenna kannski fáum nemendum dýrar greinar. Námið fer til Reykjavíkur eða er eingöngu í boði við iðnskólana í Hafnarfirði og Reykjavík. Þar með hætta norðanmenn að menntast í greininni og skortur verður á iðnaðarmönnum á svæðinu og horfir til mikilla vandræða. Þetta er eitt dæmi um mikilvægi starfsmenntaðs fólks úti um allt land.

Iðnaðurinn skapar að sjálfsögðu miklar tekjur og má nefna að þrjár af hverjum tíu krónum í landsframleiðslunni verða til í ýmsum greinum iðnaðar, t.d. stóriðju, byggingariðnaði, matvælaiðnaði, trjávöruiðnaði, pappírsiðnaði, málmiðnaði, verktakastarfsemi, upplýsinga- og tækniiðnaði o.s.frv. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðhagsstofnun.

Þann vanda starfsmenntunar sem uppi er er víða að finna. Hann er að finna í viðhorfum almennings, hann er að finna í skorti á námsráðgjöf, alvarlegum skorti á námsráðgjöf í grunnskólunum sem kemur víða fram. Þó ég ætli nú að halda mig við starfsmenntun í framhaldsskólanum í þessari umræðu þá er slík námsráðgjöf mjög mikilvæg, eins og sérmenntaðir menn á því sviði, t.d. Gísli Baldvinsson, námsráðgjafi norður á Akureyri, hefur ítrekað haldið fram m.a. á sinni glæsilegu heimasíðu, sem er mikill fróðleiksbrunnur fyrir áhugamenn um menntamál og námsráðgjöf og hvað eina sem að því lýtur, þá vantar verulega að efla hana í skólunum.

Eitt af því sem rætur vandans liggja til er reiknilíkanið sem er notað. Það skilar starfsnáminu ekki því sem eðlilegt er til að halda því úti með sómasamlegum og öflugum hætti. Við þessu hafa stjórnvöld ekki brugðist og hafa afleiðingarnar t.d. verið þær að aðsókn að einstökum greinum hefur minnkað, starfsnám, eins og ég gat um áðan, lagst af í mörgum skólum, sérstaklega úti á landi, og lítil og allt of lítil þróun átt sér stað í stofnun nýrra, styttri námsbrauta. Skólarnir hafa einfaldlega lagt slík verkefni á hilluna því þá skortir fjármagn til að halda þeim úti.

Alvarlegasti vandinn við reiknilíkanið er að sjálfsögðu frávísanirnar inn í framhaldsskólana fyrir fólkið sem ætlar að snúa aftur til náms, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni.

Að mínu mati er ein mikilvægasta undirstaða nýsköpunar í atvinnulífinu gott starfsnám sem svarar kröfum tímans og er fyrst og fremst eftirsótt af unga fólkinu, nám sem nemendurnir, unga fólkið sækir í að loknum grunnskóla. Þar er sérstaklega athyglisvert að skoða hvernig hlutföllin eru annars staðar á Norðurlöndunum samanborið við Ísland, hve stór hluti nemenda fer í einhvers konar verknám eða í bóknám. Þar eru hlutföllin má segja þveröfug þó svo að skólakerfið sé svolítið öðruvísi byggt upp. Það fer miklu stærri hluti nemenda t.d. í Svíþjóð í einhvers konar verknám eða starfsnám, enda er nánast búið að eyða brottfalli í Svíþjóð. Vel yfir 90%, 93–94% held ég af hverjum árgangi framhaldsskólanema útskrifast með einhverja gráðu, hvort sem það er styttri námsbrautir, starfsnám eða hefðbundið stúdentspróf. Þetta er frábær árangur á sama tíma og við höfum frekar verið að fara í hina áttina á Íslandi. Það kom mér mjög á óvart þegar ég sá það í tölum á síðasta vetri að þeim fækkar frekar en fjölgar sem útskrifast úr framhaldsskóla, þ.e. ef hver árgangur er tekinn hver fyrir sig, þeim er ekki að fjölga. Fjölgunin er fyrst og fremst hjá þeim sem eru að snúa aftur til náms eftir að hafa hætt náminu. Þar liggur fjölgunin fyrir utan stærri árganga. En þeim sem útskrifast úr hverjum árgangi er ekki að fjölga.

Við höfum engum árangri náð í þessum málum og hæstv. menntamálaráðherra og menntamálayfirvöld síðustu missira og ára hafa ekki sýnt málinu nokkurn einasta áhuga enda hefur ekkert verið gert sérstakt nema halda ágætlega orðaðar ræður á tyllidögum í starfsnámsskólunum um mikilvægi og gildi starfsnámsins. Þeim orðum hafa ekki fylgt neinar efndir. Það er óviðunandi. Því flytjum við þessa tillögu, nýja og endurnýjaða, til að efla starfsnámið og nýskipan í starfsnámi og fjöltækninámi, um leið og ég fagna því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins lagði ekki til að stúdentsprófið yrði stytt með þeim hætti sem lagt hefur verið til af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hingað til.

Það er áríðandi að grípa til markvissra aðgerða til að rétta hlut starfsnámsins samhliða því að tryggja því nauðsynlegt fjármagn. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið ef hnignun starfsnámsins heldur áfram og ekki verður gripið til markvissra aðgerða til að snúa þróuninni við. Samhliða átaki í kennslu og kynningu starfsnámsins og fjölgun styttri námsbrauta þarf einnig að breyta uppbyggingu og samsetningu náms í grunnskólum og gera list- og starfsnámsgreinunum þar hærra undir höfði og veita þeim skólum svigrúm til að gera svo.

Að lokum vil ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir að hafa gert það og er glaður yfir því að við höfum náð að mæla fyrir tillögunni hér við upphaf þings þannig að hún fari nú til menntamálanefndar þar sem við fáum hana vonandi afgreidda í vor enda hlýtur málið að vera þverpólitískt og um það ætti að geta náðst góð samstaða í menntamálanefnd.