132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[19:49]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Þetta er mál sem nokkrum sinnum hefur verið hreyft af þeim sem hér stendur og meðflutningsmanni hans, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Við höfum flutt þetta mál nokkrum sinnum á undanförnum árum í hv. Alþingi og höfum gert það í þeirri trú að smátt og smátt mundu opnast augu t.d. Sjálfstæðisflokksins, hins mikla flokks frjálsrar samkeppni og einstaklingsframtaks og að menn mundu sjá að eðlilegt væri að viðskipti í sjávarútvegi með ekki ómerkari afurð en fiskinn okkar sem gefur okkur 60% af útflutningsverðmætunum mundu leita í þann farveg að þar sætu allir við sama borð í viðskiptum þegar fram líða stundir. Við, hv. flutningsmenn þessarar tillögu, gerum okkur grein fyrir því að hér þarf að huga að ýmsum málum. Þess vegna höfum við lagt til að skipuð verði þriggja manna nefnd til að vinna þetta mál þannig að menn fari yfir það hvaða skref sé rétt að stíga. En við höfum lagt það til í þessari ályktun eins og segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Frumvarpið verði lagt fram á þessu þingi og að því stefnt að lögin taki gildi 1. janúar 2007.“ — Sem sagt eftir 14–15 mánuði hér frá.

„Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“

Þetta er efni tillögunnar og hefur svo sem verið rætt hér oft áður. Í greinargerð er vitnað til samkeppnislaga: Við settum nú ný samkeppnislög á liðnu vori, lög nr. 44/2005, þar sem við breyttum svolítið formi samkeppnislaganna, þ.e. Samkeppniseftirlit kom í staðinn fyrir Samkeppnisstofnun. En að meginstofni eru þau lög samt eins að því er varðar þær greinar sem hér er vitnað til í greinargerðinni varðandi lögin, þ.e. við höfum vitnað hér til 10 gr., 11. gr., og 14. gr. og það er aðeins ein breyting á þessum lögum um Samkeppniseftirlitið. Felld voru út á einum stað í þeim greinum sem við höfum vitnað til orðin „óréttmætum viðskiptaháttum“. Ástæða þótti til að fella það niður úr lögunum og það var gert. Að öðru leyti eru þau lög eins að því er varðar málatilbúnað sem hér er vitnað til.

Síðast þegar þetta mál var rætt í hv. Alþingi urðu um þessar tillögur þó nokkrar umræður. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, tók m.a. þátt í þeirri umræðu og fann þessu máli ýmislegt til foráttu. Hæstv. þáverandi forseti þingsins, Halldór Blöndal, tók einnig þátt í umræðunni og fann þessu máli margt til foráttu. Hann taldi að það væri nokkuð ábyrgðarlaust af okkur að leggja til að skoða þessi mál eins og við stingum upp á og að það væri litið til þess að viðskipti með ferskan fisk í sjávarútvegi gætu nú kannski ekki alveg talist eðlileg með tilliti til samkeppnislaga og þeirra reglna sem við höfum undirgengist t.d. með EES-samningnum. Í greinargerð okkar er m.a. vitnað til samkeppnislaganna og í henni segir, með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillaga þessi á sér meginstoðir í lögbundnum markmiðum gildandi samkeppnislaga og er ætlað að þjóna þeim, en í 1. gr. laganna segir:

„Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

b. vinna gegn ... skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.““

Ég var svo heppinn að ég fékk í hendur samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál, minnir mig að það hafi verið. Á fyrstu síðu þeirrar ályktunar er víða vikið að því sem þessi lög voru að marka sem ég var að lesa hér. Það er vikið að frelsi og framtaki einstaklingsins til athafna. Það er vikið að því að það þurfi að auka samkeppni og að hún sé vísasta leiðin til að tryggja grósku og velmegun landsmanna. Vikið er að því að fjölskyldur eigi að geta fundið sinn eigin farveg í lífinu þar sem frumkvæði einstaklinganna fái notið sín og að hver og einn eigi að eiga möguleika til að njóta sín í eðlilegu samkeppnisumhverfi. „Fyrirtæki útflutningsgreinanna verða að vera öflug,“ segir síðan. Og svo segir í niðurlagi þessa kafla, með leyfi forseta, í þessari ályktun um efnahagsmál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nýafstöðnum:

„Þrátt fyrir uppgang nýrri greina byggist velsæld íslensku þjóðarinnar enn að stórum hluta á skynsamlegri nýtingu auðlinda til lands og sjávar.“ — Og svo segir: „Mikilvægt er að umgjörð auðlindanýtingar sé í föstum skorðum og óvissa lágmörkuð og samræmis gætt varðandi nýtingu þeirra.“

Þar með finnst mér að þarna sé búið að slá svolítið kalt það sem undan var í stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins og brustu þar með vonir mínar um það að Sjálfstæðisflokkurinn mundi koma að því að styðja okkur þingmenn frá Frjálslyndum og Samfylkingunni í því að eðlilegt væri að skoða viðskipti með fisk hér á landi og eðlilegt væri að stefna til þess að engar viðskiptahindranir væru í þessari atvinnugrein. Þess vegna er það auðvitað svo, eins og ég las hér upp úr samkeppnislögunum áðan, að við teljum mjög margt í framkvæmd fiskviðskipta hér á landi ekki standast samkeppnislögin og því sé nauðsynlegt að fara yfir þessi mál. Þess vegna höfum við verið svo þráir í því að leggja þetta mál hér fram aftur og aftur, þ.e. vegna þess að við höfum álitið að það væri meirihlutaviðhorf fyrir því í stjórnmálaflokkum á hv. Alþingi að menn skyldu sitja við sama borð, eins og sagði í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins, í samkeppni og að það sé grundvallarsjónarmið að treysta því að samkeppnislögin gildi að fullu líka varðandi viðskipti með sjávarafla. En því miður er ekki svo, hæstv. forseti, og er það auðvitað mjög leitt að svo skuli vera. Í 14. gr. samkeppnislaganna segir, með leyfi forseta:

„Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.“

Hæstv. forseti. Lögin um stjórn fiskveiða gera það að verkum að mjög margir útgerðaraðilar sem jafnframt eru með fiskvinnslu fá úthlutað á hverju ári verulegum auðæfum í úthlutun aflaheimilda. Við vitum að miklar deilur hafa verið á undanförnum árum um verðmyndun á fiski. Nánast hver einasta sjómannadeila undanfarinna áratuga, leyfi ég mér að segja, hefur snúist um verðmyndunarkerfið og gerði það reyndar einnig síðast. Menn deildu þá auðvitað um það. Það fólst margt fleira í þeirri deilu eins og alltaf er. Þó að við höfum á undanförnum árum búið við fyrirkomulag í verðmyndun sjávarfangs sem byggist að nokkru leyti á störfum Verðlagsstofu skiptaverðs sem staðsett er á Akureyri þá er það samt þannig því miður að fiskvinnsla án útgerðar hér á landi sem kaupir allan sinn afla á fiskmarkaði greiðir miklu hærra verð fyrir fiskinn sem hún vinnur heldur en þau fyrirtæki sem eru með útgerð á sinni hendi og hafa fengið sérstaka kvótaúthlutun til að gera út. Þetta er bara staðreynd. Það þarf svo sem ekki að fara um langan veg til að sannreyna hana. Menn geta t.d. farið á vef Verðlagsstofunnar og skoðað verð þar. Ég gerði það að gamni mínu í gærkvöldi. Ég skoðaði verðið eins og það hefur verið á nokkrum landsvæðum. Ég skoðaði Vestfirði og slægðan þorsk þar frá því í janúar 2005 til ágústloka 2005. Það kemur í ljós að meðalverð á þorski sem fer beint til fiskverkanda, sem er oftast nær í einhvers konar tengdum viðskiptum eða þá að menn eru að útvega viðkomandi bát sem landar hjá þeim kvóta o.s.frv., er 86 kr. og 25 aurar fyrir þorskinn. En hvað skyldi það nú vera á mörkuðunum á sama tímabili? Ég ætla að taka það fram að ég strikaði út tölur þar sem selt var á mörkuðum undir 100 tonnum til þess að hafa eitthvert lágmark. Þá kemur í ljós að meðalverð á fiskmörkuðum á þessu svæði var 123 kr., þ.e. á móti 86, og sennilega nokkru hærra ef miðað er við það að ég strikaði þarna út viðskipti undir 100 tonnum.

Ef maður skoðaði annað svæði, t.d. Norðurland vestra, voru mjög góð aflabrögð þar í maí, júní, júlí og ágúst á þessu ári. Þar er verðmunurinn miklu minni, af hvaða orsökum sem það er. Þar er verðmunurinn annars vegar 116 kr. og hins vegar 131 kr. Ef maður hins vegar skoðar Suðurnesin, eða Reykjanes, ég tók út þegar magnið fór niður fyrir 100 tonn eins og ég sagði. Ef ég skoða það í júní til maí er verðið annars vegar 107 kr. og hins vegar 138 kr. og 30 aurar. Það munar því auðvitað verulegu hvort menn eru í beinum viðskiptum sem oftast nær tengjast þá aflahlutdeild, eða hvort menn eru í viðskiptum á fiskmarkaði. Það er algerlega ljóst að fiskvinnsla án útgerðar kaupir hér hráefnið á miklu hærra verði, hefur reyndar orðið að selja afurðirnar úr landi á hæsta verði sem hún hefur getað og hefur gert það vel á undanförnum árum. En hinir sem hafa þetta samkeppnisforskot koma í kjölfarið og hirða markaðina út á kvótaúthlutunina og sín lágu verð.