132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:05]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Herra forseti. Enn á ný er komin fram tillaga um skipun nefndar sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu hins vegar. Ég lýsi furðu minni á því að enn á ný sé þessi tillaga lögð fram. Hve oft hefur verið rætt um fiskvinnslu á landsbyggðinni og áhyggjur af stöðu hennar? Halda hv. þingmenn að fiskvinnsla aukist hér á landi?

Ég kem úr sveitarfélagi þar sem aflamark er mikið en töluvert af fiski hefur verið flutt út. Ég hef rætt við stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja sem eru bæði með veiðar og vinnslu. Þeir segja að ef þessi breyting gengi eftir mundi fiskvinnsla í Eyjum leggjast af. Ég veit að slíkt mundi gerast á fleiri stöðum á landinu. Aflinn yrði allur fluttur til útlanda.

Það er mikilvægt fyrir styrkingu sjávarbyggða að hafa vinnslu og veiðar á sömu hendi. Ljóst er að fiskvinnslufyrirtæki sem hafa yfir aflaheimildum að ráða og geta stýrt þeim heim í hérað til landvinnslu þurfa jafnframt að kaupa fisk á markaði til þess að tryggja stöðuga vinnslu. Ef slíkur aðskilnaður nær fram að ganga munu flutningsmenn tillögunnar eingöngu að fækka vinnslustörfum í landvinnslu enn frekar en orðið er. Ljóst er að miklar tækniframfarir og hagræðing hefur þegar fækkað stöfum í fiskvinnslu.

Norðmenn hafa aðskilið veiðar og vinnslu. Hver er árangurinn? Sjávarútvegsnefnd var bent á ummæli norska sjávarútvegsráðherrans Sveins Ludvigsens sem birtust á skip.is. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég hef komið inn í verslanir þar sem fiskborðin eru 30 metra löng og það er enginn norskur fiskur í hillunum. Hins vegar er þar jafnan gott framboð af góðum fiski frá Íslandi. Ég hef spurt verslunarmennina hverju þetta sætti og svarið sem ég hef fengið er einfaldlega það að þeir séu með viðskiptavini sem kaupi fisk 364 daga á ári og því þýði ekki að treysta á fyrirtæki sem aðeins geti útvegað hann í einn eða tvo mánuði á ári.“

Herra forseti. Það er einmitt hægt að stýra hráefnisöflun hjá þeim sem eru bæði með skip og fiskvinnslu. Það versta sem fiskvinnslan lendir í er að hafa ekki hráefni alla daga. Arðsemi vinnslunnar er ekki slík að hún hafi bolmagn til þess að missa úr vinnsludaga.

Í umsögn Samtaka fiskvinnslustöðva um þetta mál á þarsíðasta þingi segir, með leyfi forseta:

„Við teljum að slíkar breytingar gætu á skömmum tíma orðið til þess að minnka atvinnuöryggi í fiskvinnslu og möguleika sjávarútvegsfyrirtækja til útrásar í framtíðinni. Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja krefst skipulagningar jafnt í veiðum, vinnslu og markaðssetningu afurðanna. Rofni þessi keðja er afkoman í hættu. Sjávarútvegur á ekki og má ekki snúast nær eingöngu um ráðstöfun fiskaflans.

Á seinni árum hefur sú þróun verið ríkjandi hér á landi að fyrirtæki í sjávarútvegi hafa sameinast og stækkað. Á sama tíma hefur öflug starfsemi innlendra fiskmarkaða stuðlað að viðgangi fjölmargra minni fiskvinnslufyrirtækja.

Á sama tíma hefur norsk fiskvinnsla átt í miklum rekstrarerfiðleikum. Að margra mati er orsakanna að leita til aðskilnaðar veiða og vinnslu. Norsk fiskvinnsla hefur farið halloka í samkeppni um hráefnið við fyrirtæki í láglaunalöndum. Það er því rík ástæða til þess að vera á varðbergi og aðhafast ekkert sem gæti orðið til þess að veikja samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs.“

Herra forseti. Mörg sjávarútvegsfyrirtæki eru með langtímasamninga vegna sölu á afurðum sem unnar eru innan lands. Ég er fullviss um að ef rekstur veiða og vinnslu yrði aðskilinn yrði erfitt að uppfylla þá samninga sem fyrir hendi eru. Forsendan hlýtur að vera örugg hráefnisöflun og vinna alla daga vikunnar. Annars detta menn sjálfkrafa út af markaði og fiskurinn frekar sendur á erlenda markaði sem þýddi að vinnslan gæti flust úr landi.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum taka það fram að ég vitnaði í umsögn um þetta mál sem flutt var á 130. löggjafarþingi en einnig hafa borist umsagnir þar sem mælt var með frumvarpinu eða ekki tekin afstaða til þess.

Ég starfaði sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til tólf ára en aflaheimildir Eyjamanna hafa verið í kringum 10% af heildinni. Þar hefur oft verið rætt um fiskútflutning, stöðu fiskvinnslunnar og hvaða breytingar gætu orðið ef fiskvinnslan væri aðskilin frá veiðunum. Það er ekki eingöngu að fiskvinnslan legðist af og störfum í landvinnslu fækkaði, það yrði líka mikil atvinnuskerðing hjá öllum þeim þjónustuaðilum er sinna fiskvinnslunni.

Virðulegi forseti. Að lokum ber að geta þess að hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, þar sem eru bæði veiðar og vinnsla, er bókhald aðskilið. Þar kemur fram sundurliðun á því hvernig rekstur veiða gengur svo og rekstur vinnslunnar. Þetta er gegnsætt hjá fyrirtækjunum. Hér er farið eftir bókhaldslögum og í ársreikningum fyrirtækja árita löggiltir endurskoðendur reikningana. Þessi aðskilnaður í bókhaldi er eðlilegur og mikilvægur í þessari umræðu en annar aðskilnaður skaðar fiskvinnsluna, sérstaklega á landsbyggðinni.