132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:10]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sú tillaga sem við flytjum snúist ekki eingöngu, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, um verðmyndunina. Ég tel að til langtíma þjóni það Íslandi best að verðmyndun í sjávarútvegi, verðmyndun á fiski, sé sem mest á markaðnum sjálfum og að þeir brengluðu viðskiptahættir sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, með tengingu við kvótaverð, hverfi úr þessum viðskiptum. Ég tel að þau fyrirtæki sem starfa í fiskvinnslunni, en fjölmörg þeirra eru án útgerðar og kaupa nánast allt sitt hráefni á fiskmörkuðum, eigi skýlausan rétt á að starfa í viðskiptaumhverfi sem er ekki þannig að það stangist á við samkeppnislögin. Ég tel að svo sé þótt Samkeppnisstofnun hafi ekki tekið málið til meðferðar.

Það er ekki hægt að una við að fiskvinnslufyrirtæki með skip í útgerð, sem vinna sitt eigið hráefni eða greiða fyrir það lægra verð en markaðir gefa til kynna að eðlilegt væri, komi á erlenda markaði og undirbjóða þá sem þar hafa unnið sér inn markaðshlutdeild á undanförnum árum og hafa í raun verið í forustu um að ná því háa verði sem fengist hefur fyrir ferskan fisk.