132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:14]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski rétt að vekja athygli á því, vegna orða hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar, að tillagan bannar mönnum ekki að eiga viðskipti. Hún kveður hins vegar á um að fyrirtæki sem eru bæði í útgerð og fiskvinnslu hafi algjörlega aðskilinn fjárhag, fyrir útgerðina annars vegar og fiskvinnsluna hins vegar.

Við gerum okkur vonir um, ég leyni því alls ekki og tel að það væri gott upp á framtíðina, að slík þróun sem hér er gert ráð fyrir muni leiða til þess að verðmyndun á sjávarfangi verði almennt á markaðslegum forsendum. Ég tel að það geti gengið en verðmyndun á uppsjávarfiski í Noregi hefur farið fram í gegnum uppboðsmarkaði. Ætli Norðmenn hafi ekki á undanförnum árum gert meiri verðmæti úr uppsjávarfisknum en við Íslendingar, þótt við Íslendingar séum vissulega komnir upp að hliðinni á þeim, sérstaklega í síldveiðunum með því að vinna síldina á sjó og nýta heimildir okkar í norsk-íslenska síldarstofninum?

Ég vek athygli á því að það er mikill misskilningur ef menn halda að þessi tillaga geri það að verkum að viðskipti innan fyrirtækja yrðu bönnuð. Það er gerð krafa um fjárhagslegan aðskilnað á rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Við vonumst hins vegar til að það muni smátt og smátt leiða til að menn sjái kosti þess og aukin krafa verði um að verðmyndun afla verði á fiskmarkaði.