132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:22]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Það er fullt tilefni til þess að ræða þetta mál lengur og ítarlegar en verður í þessari umræðu, sýnist mér. Hér er um talsvert stórt mál að ræða, þ.e. stefnumarkandi mál um það hvernig viðskiptin gerast í sjávarútvegi með ferskfisk til landvinnslunnar.

Þetta er þingsályktunartillaga um að skipuð verði nefnd til þess að semja lagafrumvarp um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar sem falli þá að núgildandi samkeppnislögum. Við getum ekki fullyrt um það nákvæmlega ef tillagan yrði samþykkt hér í hv. þingi hvernig slíkt frumvarp mundi líta út þegar það kæmi til meðferðar.

En ég held að menn hljóti að spyrja sig að því hvort það sé neikvætt fyrir íslenskt þjóðarbú ef fiskverð almennt leitar þess jafnvægis að nálgast markaðssvæðin. Ég held að það hljóti að verða jákvætt fyrir íslenskt þjóðarbú. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Sum fiskvinnslufyrirtæki hafa starfað utan útgerðar í áratug eða meir og þau hafa verið að kaupa allan fisk á fiskmörkuðum á verulega hærra verði en fiskvinnslan sem er í viðskiptum við eigin útgerð. Það hefur sýnt sig að þessar fiskvinnslur hafa verið að leita markaða og selja afurðir á hærra verði en hefðbundna fiskvinnslan. Það er ekki fyrr en kannski síðustu fimm árin eða svo sem hin hefðbundna fiskvinnsla, þ.e. stórfyrirtækin sem reka bæði öfluga útgerð og fiskvinnslu, er að fara inn á þá markaði sem fiskvinnslur án útgerðar hafa fundið fyrir ferskan fisk.

Oft er talað um að það hafi áhrif á atvinnustigið að vinna ferskan fisk. Nú er það svo að þessi ferski fiskur er yfirleitt flakaður og snyrtur og jafnvel beinhreinsaður og roðrifinn og sendur þannig út. Í raun og veru fer þá sama vinnslan fram í fiskvinnslustöðvunum eins og var þegar átti að frysta fiskinn. Eini munurinn felst í því að fiskurinn er ekki frystur heldur er honum pakkað í umbúðir sem halda honum köldum og fluttur þannig á erlendan markað annaðhvort með flugi eða skipi. Kælitæknin hefur verið að batna á undanförnum árum og menn eru sér meðvitaðir um það hversu miklu máli það skiptir að fiskur komi vel kældur að landi til þess að það sé hægt að vinna hann áfram.

Þetta hafa menn séð á undanförnum árum og það er ekkert launungarmál að fyrirtæki eins og Samherji, sem rekur fiskvinnslu á Dalvík, hefur verið að fara inn á sömu markaði og minni vinnslur voru búnar að ryðja brautina inn á. Og það er vissulega gott, menn eru þá að auka magnið inn á markaðinn. Það er hins vegar slæmt, og er ég þá ekki að fullyrða að Samherji hafi gert það, ef þær fiskvinnslur sem eru reknar með útgerðarþættinum eru að koma inn á markaði, þar sem fyrir eru fyrirtæki sem hafa á undanförnum árum verið í viðskiptum við ákveðna aðila, og bjóða þar verulega niður verðið sem hinir voru búnir að ná upp. Það eru örugglega til dæmi um það, því miður. Menn þurfa ekki nema fara hér í heimsókn til aðila sem hafa verið að reka fiskvinnslu án útgerðar á undanförnum árum til þess að fá dæmi beint á borðið um það hvernig slíkt hefur gengið fyrir sig.

Við fórum á síðasta ári í heimsókn á Suðurnes, á fiskmarkaði og í fiskvinnslur, og ræddum við þá aðila sem voru að kaupa allt sitt hráefni á fiskmörkuðunum, félaga sem störfuðu innan Samtaka fiskvinnslu án útgerðar og þá sem eru starfandi á fiskmörkuðunum. Menn höfðu auðvitað ýmislegt við þetta fyrirkomulag að athuga og vitnuðu iðulega til samkeppnislaga þegar þeir færðu rök fyrir máli sínu og það er ekkert undarlegt að menn geri það. Hvernig hljóðar ekki 11. gr. samkeppnislaganna, með leyfi forseta?

Hún hljóðar svo:

„Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð.“

Og hvað er markaðsráðandi staða? Ætli það megi ekki leiða að því rök að þeir aðilar sem fá úthlutað verulegum aflaheimildum á hverju einasta ári, hafa aflaheimildir til þess að versla með eða leigja eða til þess að láta veiða fyrir sig á sínum eigin skipum, hafi nokkuð markaðsráðandi stöðu á því svæði sem þeir starfa á? Ég hygg það. Það fannst alla vega þeim aðilum sem ræddu við okkur.

Síðan segir áfram í 11. gr. samkeppnislaganna:

„Misnotkun skv. 1. mgr. getur m.a. falist í því að:

a. beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir.“

Skyldu menn geta sett eitthvert samhengi á milli þessara orða og þeirra viðskipta sem víða eiga sér stað um hráefni hér á landi þegar kvótinn er settur inn sem verðmæti á móti fiskviðskiptunum?

Síðan segir, með leyfi forseta, áfram í b-lið:

„b. settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum til tjóns,

c. viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt.“

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að ég er að lesa upp úr samkeppnislögunum.

Í niðurlagslið, d-lið, 11. gr. segir:

„d. sett sé það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna,“ — í þessu tilfelli verðsamningum um fisk — „hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.“

„Hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju“, hæstv. forseti. Ég var að lesa hér upp úr samkeppnislögum.

Ég held, hæstv. forseti, að það sé fullt tilefni til þess fyrir hv. Alþingi að gefa sér tíma til að fara ofan í þessi mál og ég held að það væri fróðlegt fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra ef þessi tillaga yrði samþykkt og hann skipaði þá nefnd til þess að skoða þessi mál. Af sjálfu sér leiðir að ef hv. sjávarútvegsnefnd vill breyta efni tillögunnar á þann veg að þessi mál séu fyrst skoðuð áður en lagafrumvarp er boðað þá mun meiri hlutinn auðvitað ráða því. En ég trúi því varla að menn ætli algjörlega að berja hausnum við steininn og segja sem svo: Ja, þrátt fyrir samkeppnislögin og þrátt fyrir viðskiptaumhverfið og þrátt fyrir þær tölur sem ég las hér upp um verð á ferskum fiski upp úr sjó, annars vegar í beinum viðskiptum, samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs, og hins vegar á markaði, að þá sé ekkert óeðlilegt við það þó að í fleiri, fleiri mánuði muni 50–60 krónum á hvert einasta kíló upp úr sjó af sama svæði.

Eigum við að trúa því að það teljist eðlilegt, og eigi að ganga þannig fyrir sig, að verð á fiski í beinum viðskiptum á Vestfjörðum sé 86 kr., sem er aðeins sjö krónum yfir lágmarksverðinu, en lágmarksverð fyrir undirmálsfisk er 77 krónur og einhverjir aurar? Ég tek þetta bara sem dæmi vegna þess að þetta er svo nálægt undirmálsfiskverðinu.

Það er auðvitað þannig að á vertíðinni er fiskur almennt verðmeiri, hann er fullur af hrognum og lifur og hvort tveggja eykur verðmætið. Það er því ýmislegt sem skekkir kannski verðmiðunina, sérstaklega á óslægðum fiski eins og þessar tölur sem ég var að bera saman hér. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi mál séu skoðuð bæði eftir árstíð og svæðum. Það er vafalaust til mikill gagnagrunnur hjá Verðlagstofu skiptaverðs, sem er á Akureyri, um það hvernig verðmyndun verður til hér á landi og hvernig hún hefur verið á undanförnum árum.

Ég tel að ef við mundum taka þessa tillögu til alvarlegrar skoðunar mundi verðmæti sjávarfangsins á Íslandi aukast. Vorum við ekki að stofna sérstakan sjóð um aukið verðmæti í sjávarútvegi, AVF-sjóðinn, til þess að stuðla að því? Það er eins og mig minni það, hæstv. forseti, og það séu settir í hann einhverjir tugir milljóna, ég held bara 200 milljónir, á ári til þess að vinna að þeim verkefnum. Ég tel að við séum með þessari tillögu að þjóna þeim markmiðum að auka verðmæti sjávarfangs.

Það er ekki að ástæðulausu sem þessi tillaga er hér flutt ár eftir ár og ég verð að segja það í lok máls míns, hæstv. forseti, að ég furða mig á því — miðað við samkeppnislögin á Íslandi, miðað við það sem menn vita um viðskiptin eins og þau ganga á eyrinni, annars vegar í beinni sölu og hins vegar á fiskmarkaðnum, miðað við hvernig kvótanum er blandað inn í fiskviðskiptin — að menn skuli ekki vilja hafa forustu um það hér á hv. Alþingi að þessi mál séu skoðuð ofan í kjölinn.

Þau eru mörg hættumerkin í sjávarútvegi á Íslandi og það er ýmiss konar þróun í gangi sem ekki er jákvæð að mínu mati. Ég hef horft á það hve miklu máli það skipti fyrir landsbyggðina að sjávarútvegurinn væri öflugur og að sjávarþorpin fengju að njóta þeirra landkosta að liggja vel við fiskimiðum. Þau hafa að sumu leyti náð vopnum sínum undanfarin ár í gegnum smábátakerfið en þar eru því miður blikur á lofti, hæstv. forseti. Á fundi Landssambands smábátaeigenda var upplýst að krókaaflamarksbátum hefði fækkað um 108 á einu ári eftir að kvótasett var. Þeim mun örugglega halda áfram að fækka. Ég hygg að því miður muni þetta koma víða niður á sjávarbyggðunum í framtíðinni og það fer ekkert á milli mála að á þessum 108 bátum hafa örugglega starfað yfir 100 manns, sennilega um 200 sjómenn, á undanförnum árum og einhver hefur þjónustað þá.

Því miður virðist allt stefna í það að atvinna í sjávarþorpunum dragist saman. Fiskvinnslur sem starfað hafa án útgerðar hafa ekkert verið í lakari rekstri en fiskvinnslur sem hafa starfað með útgerð og hafa flestar haldið uppi fullri vinnu fyrir sitt fólk, þannig að ég tel að við eigum að skoða þá tillögu vandlega sem hér er rædd og vita hvað megi þar verða til góðs.