132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Engin sátt hefur verið rofin. Það er náttúrlega alveg ljóst að allir stjórnmálaflokkar í landinu verða að hafa svigrúm og tækifæri til að marka sína stefnu og koma með hana fram. Það er það sem hefur gerst á þessum fundi Sjálfstæðisflokksins og er ekkert við það að athuga.

Hins vegar hefur komið út skýrsla í þessu máli sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók þátt í að semja og vann þar ágætt starf. Ég tel að niðurstöður nefndarinnar séu mjög góðar og ég hef lýst því yfir áður að ég geng út frá því að áfram verði byggt á starfi hennar. Hæstv. menntamálaráðherra hefur gert það jafnframt þannig að ég vænti þess að það starf haldi áfram á þeim grundvelli og að við varðveitum þá sátt sem þar hefur verið. En auðvitað kann svo að vera að einstakir flokkar hafi eitthvað mismunandi áherslur í þessu máli eins og alltaf er. Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að menn geti náð saman í málinu.