132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Var það ekki hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem sagði að útkominni fjölmiðlaskýrslunni að þarna hefði fengist söguleg sáttargjörð? Mig minnir það. En einn mann virðist hafa gleymst að sætta við þessa skýrslu, Davíð Oddsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Þegar Davíð Oddsson sagði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að þessi skýrsla væri handónýt og öll sú vinna sem í hana hefði verið lögð, handónýt, og það þyrfti að taka þetta mál upp aftur, já, þá snerust tveir vindhanar í rétta átt. Þeir voru hæstv. utanríkisráðherra Geir Haarde, nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra hinnar sögulegu sáttargjörðar. Þá snerust þau 180° vegna þess að enn þá stjórnar Sjálfstæðisflokknum Davíð Oddsson.

Við í Samfylkingunni gerðum þær athugasemdir við þessa málamiðlun sem varð í fjölmiðlanefndinni að þessi prósenta væri sérkennileg. Ég vakti athygli á því að með þessari prósentu þyrfti að taka upp eignarhald Morgunblaðsins sem enginn hafði þangað til og hingað til gert athugasemdir við eignarhaldið á, það þyrfti að taka það upp, það þyrfti að segja eigendum Morgunblaðsins að skipta sér, fara í frumuskiptingu. Það er sérkennileg niðurstaða að við þyrftum að gera það, það hlýtur nú ráðherra hinnar sögulegu sáttargjörðar að taka undir. En nei, það á að fara enn lengra, það á að draga prósentuna enn lengra niður og forsvarsmaður þess, hinn nýi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að gera það meðan hún leggur fram frumvarp um það að hún ein, hæstv. ráðherra, fari með 100% vald í einum fjölmiðli á landinu, þeim sterkasta, Ríkisútvarpinu. Er hægt að taka mark á þessu fólki? (Gripið fram í: Nei.)