132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:46]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Samfylkingin hefur á síðustu árum talað mikið um lýðræði og reynt að uppmála sig sem helsta málsvara lýðræðis á Íslandi og hefur þar fremst farið í flokki núverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Nú kemur hv. þingmaður hingað upp í ræðustól Alþingis og lýsir því að sérkennileg uppákoma hafi átt sér stað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og í kjölfar þess fundar, þ.e. að hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra lýsi því yfir að þeir séu samþykkir og sammála þeim ályktunum sem samþykktar eru á 2000 manna landsfundi flokksins.

Það er þannig á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins að það er landsfundur sem skapar stefnu okkar og við hlustum á fólkið í flokknum okkar. Það er það sem fær að búa til þá stefnu sem við störfum eftir og auðvitað koma ráðherrar okkar og þingmenn sem starfa samkvæmt ályktunum flokksins og tala í takt við það sem þar fer fram. Skárra væri það nú ef það væri ekki gert og það furðar mig að stjórnmálamanni sem talar fyrir lýðræði og gefur sig út fyrir að vera mikill lýðræðissinni þyki slíkt verklag vera sérkennilegt, að það sé sérkennileg uppákoma. Auðvitað er það ekki svo. Þetta eru eðlileg lýðræðisleg vinnubrögð sem við vinnum eftir.

Ég vil líka taka fram að það stendur ekki til að rjúfa neina sátt sem komist hefur verið að. En með fullri virðingu fyrir þeirri fjölmiðlanefnd sem sat hér og komst að niðurstöðu vil ég benda á að fjölmiðlanefndin setur engin lög. Það er Alþingi Íslendinga sem kemur til með að setja lög um fjölmiðla ef það verður niðurstaðan, ekki þessi fjölmiðlanefnd. Og það verður Alþingi en ekki nefndin sem mun segja sitt síðasta orð í því máli.