132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:49]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það að mér finnst viðbrögð hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar æðisérkennileg í ljósi þess að fjölmiðlaumhverfið hefur verið til mikillar umræðu. Menn hafa rætt mismunandi lausnir í því sambandi.

Það er rétt sem fram hefur komið að þegar skýrsla menntamálaráðherra kom út á liðnu vori tóku þingmenn úr öllum flokkum jákvætt í þá niðurstöðu. Það lá hins vegar alltaf ljóst fyrir að sú niðurstaða sem þar varð var einungis grundvöllur undir væntanlegt lagafrumvarp og ég held að það sé enginn vafi í hugum manna að það frumvarp verður, eins og hæstv. menntamálaráðherra greindi frá áðan, byggt á niðurstöðu nefndarinnar, byggt á ákveðinni sátt um ákveðin grundvallarsjónarmið sem þar koma fram. Við vitum hins vegar að í meðförum þings og í umræðum sem munu fara fram í því sambandi skoða menn auðvitað ýmsa þætti varðandi útfærslu og þess háttar.

Nú er ég ekki að segja hver niðurstaðan verður, ekki hef ég hugmynd um það. Frumvarpið höfum við ekk séð og þess vegna eru umræður um væntanlegt frumvarp fullkomlega ótímabærar. Hins vegar er enginn vafi í huga mínum að það starf sem var unnið í nefndinni verður mikilvægur grundvöllur lagasetningar á þessu sviði jafnvel þótt menn hafi ólíkar skoðanir á útfærsluatriðum eins og oft hefur komið fram. Ég minni á að í umræðum um skýrsluna þegar hún var kynnt á liðnu vori þá var helst að heyra efasemdaraddir úr ranni Samfylkingarinnar. Ég minnist þess sérstaklega að hv. þm. Mörður Árnason var eini þingmaðurinn sem gerði verulegan fyrirvara við skýrsluna í þeim umræðum.