132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:53]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það hárrétt sem hefur komið fram í máli stjórnarþingmanna og hæstv. forsætisráðherra að frumvarpið verður byggt á fjölmiðlaskýrslunni sem var lögð fram í vor. Fjölmiðlaskýrslan sem slík gerir fólk hins vegar ekki skoðanalaust, a.m.k. ekki mig. Þetta er mín skoðun, mér finnst hlutfallið of hátt. En frumvarpið er á lista mínum um lagafrumvörp og mun verða lagt fyrir á þessu þingi. Ég hef þegar sagt að ég mun gera allt til þess að það verði sem mest sátt um það. Þess vegna hef ég sagt að ég tel mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar komi að samningu frumvarpsins á einn eða annan hátt þannig að sem mest samstaða náist um það.

Afstaða mín er skýr og afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr. Menn eiga að setja lög um fjölmiðla sem fela í sér breytt eignarhald og skarpar línur í þá veru að tryggja sem fjölbreyttasta og frjálsasta fjölmiðlun hér á landi. Þetta mál er alveg skýrt hvað það varðar.

Ég ítreka einnig það sem ég sagði áðan: Mér finnst það mjög ankannalegt þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins er nýafstaðinn að við, formaður og varaformaður, segjum ekki hver stefna flokksins sé. Mér finnst það mjög skrýtin skilaboð ef það á algerlega að hunsa þau skilaboð sem þaðan koma. Mér finnst sjálfsagt að menn veki athygli á þeim. En fjölmiðlaskýrslan var lögð fyrir í vor og það mun verða byggt á henni. Síðan er annað mál hvað þingið mun gera í kjölfar þess frumvarps sem lagt verður fyrir.