132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[13:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur haldið fram sí og æ að það gæti mikils stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Það er rétt að hæstv. forsætisráðherra viðurkenni að svo er ekki. Rétt eins og hann ætti fyrir löngu að vera búinn að viðurkenna að ekki var rétt að styðja innrásina í Írak. Hvers vegna er rétt að viðurkenna það sem m.a. Seðlabankinn bendir á, að það ríkir ójafnvægi í þjóðarbúskapnum? Það er vegna þess að forsætisráðherra sem yfirmaður efnahagsmála á að senda réttu skilaboðin út í þjóðfélagið og bregðast við hættunum sem allir aðrir en framsóknarmenn sjá. Það er helst að það örli eitthvað á áhyggjum yfir stöðunni hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur en hún tjáir áhyggjur sínar í nokkrum pistlum á heimasíðu sinni. Fólk á höfuðborgarsvæðinu sér ójafnvægið í því að íbúðaverð hækkar um 40% á einu ári.

Að undanförnu hefur mest verið rætt um augljósan vanda fiskvinnslunnar, hás gengis og lokun rækjuverksmiðja víða um land, svo sem á Stykkishólmi, Húsavík, Blönduósi og víðar. Það bætir gráu ofan á svart sem byggðaeyðing kvótakerfis hæstv. forsætisráðherra hefur þegar stigið fæti niður.

Það eru fleiri útflutningsgreinar sem eiga erfitt uppdráttar, svo sem ferðaþjónustan. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað hraðast fiskur um hrygg á síðustu árum og hefur ferðamönnum fjölgað um liðlega fimmtung á hverju ári frá 1995. Í vor sem leið fannst aðilum í ferðaþjónustunni nóg um hátt gengi krónunnar en síðan þá hefur krónan styrkst um liðlega 10% og enn sigið á ógæfuhliðina. Fyrirtæki sem kynnir og selur þjónustu sína í erlendri mynt fær einfaldlega 10% færri krónur í kassann. Stór kostnaðarliður fyrirtækja í ferðaþjónustu eru laun greidd í íslenskum krónum sem munu miklu frekar hækka en standa í stað.

Ferðaþjónustuaðilar eru þessa dagana að verðleggja þjónustuna fyrir næstu sumarvertíð og þeim er vandi á höndum. Hver eru skilaboð hæstv. forsætisráðherra til þeirra? Er það áframhaldandi tekjuskerðing fyrirtækjanna í gegnum enn hærra gengi krónunnar? Hætt er við að ferðaþjónustuaðilar veigri sér við að hækka verðið mjög í erlendri mynt vegna hættu á að verðleggja sig út af markaðnum. Við verðum að hafa í huga að staðan í mörgum fyrirtækjum er viðkvæm þar sem eiginfjárhlutfall í ferðaþjónustunni er lágt eða undir 5%. Ferðaþjónustan er vaxtarbroddur í íslensku efnahagslífi sem stjórnvöld verða að umgangast með virðingu.

Orsökin fyrir þessu háa gengi krónunnar er sú viðleitni Seðlabankans að stemma stigu við þenslu og aukinni verðbólgu með því að hækka vextina. Æ sterkari efasemdir eru farnar að heyrast um að þessi aðferð Seðlabankans dugi ein og sér og jafnvel er leitt að því líkum að vaxtahækkunin sé farin að snúast upp í andhverfu sína, þ.e. að háir vextir leiði til innflæðis á erlendu lánsfé sem hækkar gengi krónunnar enn þá meira. Þessi ofurháa króna slær ekki á þensluna heldur þvert á móti lækkar verð á innfluttum vörum sem streyma í stríðum straumum inn í landið og auka enn á ójafnvægið í efnahagsmálum. Þeim sem blæðir eru einkum útflutningsatvinnugreinarnar en einnig allur almenningur þegar fram líða stundir.

Efasemdaraddirnar um vaxtastefnu Seðlabankans eru farnar að berast úr herbúðum stjórnarliða og er það einkum varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem fer reglulega með játningar í þessum efnum. Þá má nefna dæmalausa ræðu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson, flutti hjá Samtökum fiskvinnslustöðva en þar sló hann úr og í eins og honum einum er lagið. Einnig má nefna ræðu sem Vilhjálmur Egilsson sjálfstæðismaður flutti þann 13. september síðastliðinn en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ef Seðlabankinn neyðist enn og aftur til að hækka vextina og gengisvísitalan fer að rokka á bilinu 100–105 tel ég að það muni virka eins og að enda veisluna með látum.“

Frú forseti. Það er einmitt það sem hefur gerst. Í framhaldi af efasemdaröddum sjálfstæðismanna um vaxtastefnu Seðlabankans og skipan foringjans Davíðs Oddssonar í Seðlabankann er rétt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort vænta megi breytingar á vaxtastefnu bankans nú um helgina þegar foringinn tekur til starfa. Ætla stjórnvöld að einhverju leyti að bregðast við þröngri stöðu útflutningsgreinanna og hvernig þá, frú forseti?