132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tel fullkomlega eðlilegt að hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn hafi áhyggjur af stöðu útflutningsgreinanna. Við vitum að gengi krónunnar er mjög hátt og við erum að ganga í gegnum allverulega erfiðleika í þeirri miklu efnahagsuppsveiflu sem er, ég segi erfiðleika fyrir útflutningsgreinarnar, það liggur ljóst fyrir. En efnahagsuppsveiflan er mjög jákvæð og hún skiptir miklu máli fyrir þjóð okkar og þjóðarbúskap og við verðum að líta á það ástand sem við nú göngum í gegnum sem tímabundið ástand.

Hins vegar verða menn að líta til allra þátta í þessu máli. Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir að atvinnulífið er betur í stakk búið til að ganga í gegnum þessa uppsveiflu, m.a. vegna stóriðjuframkvæmdanna, en það var fyrir nokkrum árum. Hér hafa verið miklar skipulagsbreytingar, skattar á fyrirtæki hafa lækkað mjög mikið, breytingar á fjármálamarkaði hafa verið mjög miklar, fyrirtæki hafa verið sameinuð og margvísleg hagræðing hefur átt sér stað í þjóðfélaginu. Allt hefur þetta orðið til þess að fyrirtækin eru sterkari og betur í stakk búin til að taka á sig slíkar sveiflur.

Einnig má geta þess að ávöxtun á hlutabréfamarkaði hefur verið góð og mjög góð. Úrvalsvísitalan hefur hvorki meira né minna en hækkað um 37,8% frá áramótum og þar af um 12% á þriðja ársfjórðungi þannig að það er nú ekki eins og allt sé hér í kaldakoli.

Síðan eru útflutningsgreinarnar misjafnlega staddar í þessu sambandi. Sem betur fer er hægt að segja það um sjávarútveginn að verð á sjávarafurðum hefur farið hækkandi frá því í lok síðasta árs og meðaltal verðvísitölu sjávarafurða í SDR var tæplega 9% hærra í janúar til ágúst í ár borið saman við sama tímabil árið 2004. Það er náttúrlega alveg ljóst að þetta léttir málið fyrir sjávarútveginn. Einnig liggur fyrir að mjög mikill hluti af útgjöldum fiskveiðanna er kostnaður sem ekki er háður genginu og talið að það sé um tveir þriðju. Þessu er að vísu öðruvísi farið í fiskvinnslunni þar sem kostnaðurinn fylgir að langmestu leyti verðlagsþróun innan lands.

Það er enn fremur rétt hjá hv. þingmanni að ferðaþjónustan stendur frammi fyrir erfiðum málum og vonandi verður breyting þar á. Gert er ráð fyrir að gengisvísitalan í ár verði að meðaltali 110 og í þeirri spá sem liggur fyrir frá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir að hún verði að meðaltali 114 á næsta ári og tæplega 120 árið 2007.

Auðvitað vitum við ekki nákvæmlega hver raunveruleikinn verður. En ég held að allir geti verið sammála um að mikilvægt sé að mál þróist til þessarar áttar og menn líti til framtíðar með því hugarfari og þá sérstaklega þau fyrirtæki sem þurfa að ganga í gegnum vissulega verulega erfiðleika af þessum sökum. En aðalatriðið er að hagkerfi okkar er mjög sterkt og öflugt. Hér hefur verið mikill hagvöxtur, mikil kaupmáttaraukning og það skiptir öllu að sú þróun haldi áfram. Liður í því er að ljúka við þær framkvæmdir sem við stöndum nú í til þess að auka útflutning okkar sem mun drífa áfram hagvaxtarsveifluna í framtíðinni.