132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

sStaða útflutningsgreina.

[14:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að hefja þessa umræðu og draga hæstvirta ráðherra í salinn til að ræða afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina eða öllu heldur óviðunandi afkomu þeirra. Ég held að það veitti ekki af að hafa eina svona umræðu á dag þangað til hæstv. ríkisstjórn fer að átta sig á að það er eitthvað að, það þýðir bara ekki endalaust að stinga höfðinu í sandinn.

Tekjutap sjávarútvegsins miðað við núverandi gengi er a.m.k. 30 milljarðar á ársgrundvelli. Og þó svo að þar komi ef til vill á móti 5–10 milljarðar, sem er þó sennilega tæplega það, í hækkandi afurðaverði hallar þarna samt á sjávarútveginn um rúmlega 20 milljarða. Þetta eru ósköp einfaldlega nauðaeinfaldir útreikningar. Ef við tökum heildarframleiðsluverðmæti sjávarútvegsins upp á 120 milljarða í fyrra miðað við gengisvísitölu yfir 120 þá er þetta ekki flókið dæmi.

Raunhæfasti mælikvarðinn eru þó kannski upplýsingar um framlegð í greininni. Nú er það talið samkvæmt þjóðhagsáætlunum, m.a. frá ríkisstjórninni, að framlegð sjávarútvegsins verði aðeins 16% á árinu, sú lægsta síðan fyrir 1990. Sjálfur bókhaldarinn, hæstv. forsætisráðherra, ætti þó að taka mark á þessu. Það ætti að segja hæstv. forsætisráðherra eitthvað að núna er spáð minnstu framlegð í höfuðútflutninsgreininni, sjávarútvegi, í meira en einn og hálfan áratug.

Um ferðaþjónustuna þarf náttúrlega ekki að ræða. Þar eru menn að gera upp eftir sumarið samninga um gistingu og þjónustu sem gjarnan voru gerðir fyrir einu til tveimur árum. Hvernig halda menn að það komi út ef samið var á meðan evran var í 110, 120 kr. eða dollarinn vel yfir 100 kr.? Það er dúndrandi tekjufall á sama tíma og kostnaður fer upp innan lands.

Hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að gera neitt. Það er alveg sama hvaðan ráðleggingarnar koma, t.d. um að fresta skattalækkunum — þó að þær komi úr skýrslum ríkisstjórnarinnar sjálfrar eins og frá nefndinni um hágengi í sjávarútvegi, sem nefnir þann möguleika (Forseti hringir.) að fresta skattalækkunum. (Forseti hringir.) En það er alveg sama, ríkisstjórnin hefur ákveðið að láta frekar innlenda atvinnuvegi hrynja en að láta af stóriðju- (Forseti hringir.) og skattalækkunartrúboði sínu.