132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:19]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi orða síðasta hv. ræðumanns held ég að rétt sé að halda þessum tveimur hugtökum hátt á lofti, stöðugleika og aðhaldi. Þetta er kjarninn, stöðugleikinn er það markmið sem við hljótum jafnan að stefna að en það er ekki stöðugleiki kyrrstöðu heldur stöðugleiki efnahagslegs vaxtar.

Að undanförnu höfum við keyrt efnahagslífið mjög hart, það er alveg ljóst. Það er alveg ljóst að sá mikli hagvöxtur sem við höfum séð á undanförnum missirum veldur því að það tekur nokkuð í í efnahagsmálunum. Það birtist í vaxtaákvörðunum Seðlabankans en eins og oft hefur komið fram í þinginu eru skiptar skoðanir um þær. Sumum, þar á meðal mér, þykir Seðlabankinn hafa verið full einstrengingslegur í vaxtapólitík sinni með þeim afleiðingum að gengið hefur hækkað meira en efni standa til.

Hins vegar er kannski mikilvægast fyrir okkur í þessari umræðu að reyna að átta okkur á því hvað við sem stjórnmálamenn getum gert í þessu. Þar hefur fjármálaráðherra að sjálfsögðu eins og allir þeir sérfræðingar sem um málið hafa fjallað lagt áherslu á aðhaldið. Við megum ekki gleyma því að aðhaldið í opinberum fjármálum er mikilvægur kjarni þess sem ríkisstjórnin getur gert til þess að standa vörð um stöðugleikann. Aðhaldið er, samkvæmt langtímaáætlunum fjárlaga, að vöxtur ríkisútgjalda og opinberra útgjalda verði mun minni en vöxtur landsframleiðslunnar, með þeim afleiðingum að þáttur hins opinbera dragist saman. Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum okkur við þetta markmið og ef við eigum liðsvon í Samfylkingunni eða öðrum hv. þingmönnum stjórnarandstæðinga þá er það fagnaðarefni en miðað við útgjaldahugmyndirnar sem maður heyrir frá þeim í hinu orðinu þá er ég efins um að við náum samstöðu um það.