132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er mjög jákvætt að heyra að hæstv. forsætisráðherra er farinn að hafa áhyggjur af ástandinu þótt hann hafi ekki boðað neinar breytingar eða boðað einhverjar aðgerðir. Annað sem ég vildi minnast á er að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki annarri fyrirspurninni sem ég lagði fyrir hann en það var hvort vænta mætti einhverra breytinga nú um helgina þegar nýr seðlabankastjóri tekur við. En ég á von á því að hann geri það hér á eftir í svari sínu.

Það sem ég vil minna á er að þær spár sem hafa verið gerðar yfirstandandi ár hafa ekki gengið eftir. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra komið með nýja spá og ég vona að honum gangi betur að spá fyrir um gengið og þróun efnahagsmála en honum hefur gengið hingað til að spá fyrir um vöxt þorskstofnsins sem frekar minnkaði en hitt í stjórnartíð hans í sjávarútvegsráðuneytinu. Ég vil einnig spyrja hvort hann sé sammála orðum Vilhjálms Egilssonar, þ.e. að ef þróun efnahagsmála yrði eins og hún varð og hefur orðið þá mundi þessi veisla sem staðið hefur yfir enda með hvelli. Er hann sammála orðum Vilhjálms Egilssonar hvað það varðar?

Nú er það svo að Vilhjálmur Egilsson er ekki eingöngu sjálfstæðismaður. Hann er einnig ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og ég tel við hæfi að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra sé sammála fyrrum ráðuneytisstjóra sínum um þróun efnahagsmála. Ef þróunin sem hefur orðið hefur gengið eftir, hvort þetta endi með hvelli. Ég er sannfærður um að við verðum að bregðast við og taka á málunum og ég vona svo sannarlega að hægt sé að vekja ríkisstjórnina af værum blundi í þessum efnum.