132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta hefur um margt verið athyglisverð umræða en það er svo með stöðugleikann að hann mun aldrei viðhaldast nema með stefnufestu. Það mun aldrei verða stöðugleiki hér ef menn eru alltaf að breyta um stefnu og alltaf að breyta um kúrs og ég heyri ekki betur en stjórnarandstaðan vilji það. Hún kvartar yfir því að hér sé sungið sama lagið. Það er einmitt það sem við verðum að gera ef það á að vera stefnufesta og stöðugleiki, það er að syngja sama lagið en vera ekki alltaf að breyta um stefnu þótt vindar blási úr einhverjum öðrum áttum. Og það sem er mikilvægast í efnahagsmálum á næstunni er að viðhalda sátt á vinnumarkaði. Það er langmikilvægast af öllu. Hvað er stjórnarandstaðan að leggja til í því sambandi? Að hætta við skattalækkanir á næsta ári? Að hætta við skattalækkanir á árinu 2007? Telja menn að það sé mjög gott innlegg í þá umræðu sem snýr að kaupmætti launþega?

Mér finnst það alveg með eindæmum hvað stjórnarandstaðan leggur til í þessu sambandi. Og svo er bætt við að það sé rétt að banna uppbyggingu ákveðinnar framleiðslustarfsemi. (SigurjÞ: Ekki gleyma að svara.) Það á að vera innlegg í stöðugleika og uppbyggingu til framtíðar. (SigurjÞ: Verður breyting um helgina?) Frú forseti. Ég hélt að allir hv. þingmenn þekktu lögin um Seðlabankann og sjálfstæði hans og ég hvet hv. þm. Sigurjón Þórðarson til að lesa lögin en hann hefði átt að lesa þau áður en hann fór í pontu.