132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Tækið sem um er fjallað í fyrirspurn hv. þingmanns er afskaplega gagnlegt en hann spurðist einnig fyrir um svipuð eða sams konar tæki í vor. Þá var farið yfir það hver þróunin hefur verið í þessum efnum hér á landi og á Norðurlöndunum. Hér eru til tveir minni bílar sem geta sinnt þessum störfum en stærri bílar hafa komið í notkun í nágrannalöndunum að undanförnu. Jafnframt kom fram að á fjárlögum þessa árs væri gert ráð fyrir að kaupa tæki til að gegnumlýsa pakka í sama tilgangi.

Þarna er um talsvert miklar fjárfestingar að ræða. Þess vegna hefur verið í gangi vinna á vegum tollstjórans í Reykjavík til að kanna hvað væri heppilegasta lausnin fyrir okkur í þessum efnum. Þeirri athugun er ekki lokið og því væri of mikið sagt að segja að fyrirhugað sé að kaupa slík tæki. Ég held að við verðum að láta þeirri athugun ljúka áður en við getum tekið ákvarðanir. Fyrr get ég ekki kveðið upp úr með að fyrirhugað sé að kaupa tækin.

Eins og fyrr segir, frú forseti, er verið að skoða hver sé heppilegasta tæknilega lausnin frá okkar bæjardyrum séð. Að því loknu verða teknar ákvarðanir.