132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:40]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Hér er um athyglisverða fyrirspurn að ræða. Ég hvet nýjan fjármálaráðherra til að beita sér í þessum málum. Talað er um að mesta vá sem steðjar að ungu fólki í dag séu eiturlyf. Þess vegna eigum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að hægt sé að smygla eiturlyfjum til landsins. Við þurfum að leggja pening í að kaupa öll þau bestu tæki sem hugsanleg eru til að herða það eftirlit því að það er hræðilegt að sjá á eftir ungu efnilegu fólki verða eiturlyfjum að bráð. Ég hvet enn og aftur hæstv. fjármálaráðherra til að beita sér af alefli í þessum efnum.