132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans svör. Málið er í athugun og væntanlega verður það skoðað. Ég held að full ástæða sé til þess, hæstv. fjármálaráðherra, að athuga hvort ekki sé rétt að taka svona tæki á leigu til að skoða í ljósi þess að umhverfi í innflutningi til landsins er orðið svo breytt. Hér hefur Seyðisfjarðarhöfn komið mikið til umræðu. Þangað koma þúsundir ferðamanna. Þar er mjög léleg aðstaða til að skoða bíla. Þar er mjög léleg aðstaða til að fylgjast með í samræmi við Schengen-samkomulagið sem við höfum gengist undir. Menn eru nánast með stækkunargler að skoða þar vegabréf en þörf er á miklu fullkomnari tækni til að skoða þau og fylgjast með. Við stöndum frammi fyrir því að Grundartangahöfn er að verða ein umsvifamesta höfn landsins og önnur er að koma til sögu, þ.e. Reyðarfjörður. Að meðaltali kemur skip til Reyðarfjarðar annan hvern dag og þannig er það á Grundartanga.

Bifreiðin sem við erum að tala um og sem hugsanlega væri hægt að taka á leigu er svo afkastamikil að ekki tekur nema þrjár mínútur að skoða 40 feta gám. Við sjáum hagræðinguna í því miðað við að þurfa tíu tollverði í að losa einn gám til að geta skoðað hann. Við verðum að passa okkur á því að dragast ekki aftur úr í þessu óprúttna eiturlyfjaumhverfi eins og það er orðið. Það er orðið svo ósvífið að við getum ekki setið með hendur í skauti og látið þetta fara fram hjá okkur og standa svo frammi fyrir því að við liggur að íslensk æska geti labbað út og keypt sér eiturlyf og jafnvel á auðveldari hátt en að fá sér karamellur.