132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[15:02]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að mikil breyting hefur orðið í landinu þar sem sjóflutningar eru algerlega aflagðir og allir flutningar eru komnir á þjóðvegina. Það er í rauninni ekki mjög auðvelt mál að koma upp svona jöfnunarsjóði. Ég vil benda hv. þingmönnum á að á síðasta ári lögðum við niður sementsjöfnunarsjóð sem átti að vera og var til þess að jafna sementskostnaðinn niður á landsbyggðina. Ég held að flestir þingmenn hafi verið — reyndar tók ég ekki þátt í þeirri atkvæðagreiðslu þar sem ég átti þá sæti í sementsjöfnunarsjóði. Við höfum síðan olíujöfnunarsjóð og það er líka umdeildur sjóður.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta er kannski ekki mjög auðvelt mál, en ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hún viti hvernig svona flutningsjöfnun er á Norðurlöndunum.