132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Til mín er beint fyrirspurn um fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar. Spurt er hvort iðnaðarráðuneytið hafi styrkt slíkar miðstöðvar og ef svo sé, hversu háir slíkir styrkir hafi verið síðustu fimm ár.

Rétt er að geta þess í upphafi að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar heyra undir verksvið menntamálaráðuneytis en iðnaðarráðuneytið hefur engu að síður styrkt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sl. þrjú ár á grundvelli samkomulags við menntamálaráðuneytið um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Samkvæmt samkomulaginu skuldbinda ráðuneytin sig til þess að leggja hvort um sig fram að lágmarki 50 millj. kr. á ári til sameiginlegra verkefna árin 2003, 2004 og 2005 eða alls um 300 millj. kr. Hluti þessarar fjárhæðar hefur runnið til eflingar fræðslu- og símenntunarmiðstöðva en það er á herðum menntamálaráðuneytisins að útbúa áætlun um samstarfsverkefni ráðuneytanna á grundvelli samkomulagsins. Menntamálaráðuneytið hefur einnig yfirumsjón um fjársýslu verkefnanna.

Efling símenntunarmiðstöðva og uppbygging háskóla eða þekkingarsetra er sérstakur liður í samkomulagi iðnaðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis en í byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005 er lögð áhersla á að starfsemi símenntunarmiðstöðva verði efld. Á grundvelli samkomulags ráðuneytisins var 16 millj. kr. ráðstafað til þekkingarseturs á Egilsstöðum árið 2003 og sömu fjárhæð árið 2004. Áætlun er um að veita sömu fjárhæð til þekkingarsetursins á þessu ári.

Markmiðið með fjárveitingunni hefur verið að byggja upp og reka háskólasetur á Egilsstöðum, að tengja háskólanám rannsóknarstarfsemi og atvinnulífi á Austurlandi og taka þátt í þróun fjarnáms á háskólastigi.

Þekkingarsetur á Húsavík fékk 5,4 millj. kr. á árinu 2003, 5 millj. kr. á árinu 2004 og sömu fjárveitingu í ár. Markmiðið er að stuðla að eflingu rannsókna og háskólanáms í Þingeyjarsýslum í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands, Fræðslumiðstöð Þingeyinga og háskóla. Til eflingar þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum var ráðstafað 10 millj. kr. 2003, 6 millj. 2004 og áætlað er um 40 millj. kr. fjárveitingu í ár. Markmiðið hefur verið að byggja upp þekkingarsetur á Ísafirði með samvinnu háskóla, rannsóknastofnana, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, sveitarfélaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Sá markverði árangur náðist í vor að háskólasetur Vestfjarða var stofnað á Ísafirði en tilgangur þess er að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu háskólamenntunar, rannsókna- og þekkingarstarfs á Vestfjörðum, vera samstarfsvettvangur þeirra aðila er vinna að verkefnum á sviði rannsókna, háskóla og símenntunar, fjölþjóðlegra samstarfsverkefna, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar. Þá er 10 millj. kr. varið til eflingar símenntunarmiðstöðva um land allt árið 2003 á grundvelli samkomulags iðnaðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Sömu fjárhæð var varið til verkefnisins árið 2004 og áætlun hljóðar upp á sömu fjárveitingu í ár. Markmiðið með fjárveitingunni er að tryggja fjarskipta- og myndfundaþjónustu fyrir símenntunarmiðstöðvar um land allt. Í þessum tilgangi hefur verið lokið við uppbyggingu FS-nets sem er háhraðanet fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva á Íslandi og styrkir hafa verið veittir til símenntunarmiðstöðva til að koma til móts við fjarskiptakostnað.