132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:18]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Þær tíu fræðslu- og símenntunarstöðvar sem eru á landinu skipta mjög miklu máli á þeim stöðum þar sem þær eru starfræktar. Það er varla til skýrari dæmi um mismunun milli opinberra stofnana en þegar maður skoðar hvaða fé fer til reksturs þessara fræðslu- og símenntunarstöðva.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig velur hæstv. ráðherra úr þessum tíu fræðslu- og símenntunarstöðvum þær stöðvar sem fá tugi milljóna króna. í aukið rekstrarfé á því tímabili sem hér var spurt um? Hvaða reglur gilda þar þannig að aðrar símenntunarstöðvar, sem ekki hafa notið þessara sem ég vil kalla geðþóttaákvarðana ráðherra, geti þá sóst eftir því að fá fé á sömu samræmdu forsendunum og hinar stöðvarnar? Ég geng út frá því að hér sé um gegnsæjar ákvarðanir að ræða, byggðar á ákveðnum forsendum, og ef aðrar stöðvar séu tilbúnar til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fái þær sama rekstrarfé frá ríkinu og þær stöðvar sem mest fá.