132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég tel rétt að koma því á framfæri af því að F-listinn á ekki enn þá borgarfulltrúa í þinginu að F-listinn í borgarstjórn hefur algjöra sérstöðu í flugvallarmálinu því hann er eina stjórnmálaaflið sem hefur tekið þá afstöðu að ekki komi til greina að flytja flugvöllinn.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka málið á dagskrá vegna þess að þetta mál þarf að ræða á víðari grundvelli. Að vísu er ég ekki sammála honum hvað það varðar að flytja flugvöllinn upp á heiðar, á Miðdalsheiðina, vegna þess að það skapar ákveðin vandamál. Þar er lægra skýjafar og þoka þannig að sá flugvöllur mundi ekki nýtast eins vel og sá sem er nú í notkun.

Í fjölda umræðuþátta hafa menn algerlega hlaupið yfir að ræða hvernig koma eigi til móts við sjónarmið fólks af landsbyggðinni. Það er eins og sjónarmið fólks af Austfjörðum, Vestfjörðum, Norðurlandi og Vestmannaeyjum skipti engu máli í umræðunni. Þetta lýsir ákveðinni firringu í þjóðfélaginu. Einnig er eins og menn ætli að leysa öll skipulagsvandamál Reykjavíkurborgar með því einu að flytja flugvöllinn. Þetta er rosalega barnaleg einföldun, það er eins og menn haldi að Reykjavík verði einhver meiri háttar borg sem verði boðleg fínu fólki ef hægt að reisa skýjakljúfa upp í loft og þétta byggð. Ef skoðað er hvar byggð er þéttust í Reykjavík er það á Grettisgötunni og ekki eru skýjakljúfar þar.

Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á að þetta er flugvöllur allrar þjóðarinnar og fólk hvaðanæva af landinu á rétt á greiðum aðgangi að höfuðborg sinni, miðstöð stjórnsýslu, verslunar og mikilvægra sjúkrastofnana. Það er staðreynd að töluverður hluti af skattfé kemur af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið og þess vegna verða menn að (Forseti hringir.) koma því þannig fyrir að fólk af landsbyggðinni (Forseti hringir.) eigi aðgang að þeirri þjónustu sem það greiðir fyrir.