132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:35]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega vonbrigði að viðræðunum sem fyrirhugaðar voru í Washington í þessari viku skyldi ekki miða meira áfram. Það var ekki haldinn formlegur samningafundur eins og til stóð heldur hittust formenn samninganefndanna og fóru yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið og liggja fyrir af beggja hálfu í málinu. Ég hafði eins og hv. þingmaður rifjaði upp gert mér vonir um að hnika mætti þessu máli lengra og koma því í höfn áður en mjög langt um líður.

Það er auðvitað ekkert útilokað og ekki er hægt að tala um einhverja sérstaka uppstyttu í málinu. Framhaldið verður það að það verða fundir, ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti þeir verða eða hvenær. En aðalatriðið er að við höfum af Íslands hálfu lýst því yfir, eins og hefur margkomið fram af minni hálfu, að við erum tilbúnir að taka ríkari þátt í kostnaði við rekstur flugvallarins í Keflavík en verið hefur vegna þess að borgaraleg flugumferð hefur þar aukist mjög en hernaðarleg umferð minnkað. Þetta eru þær forsendur sem við viljum leggja til grundvallar. Bandaríkjamenn hafa önnur sjónarmið. Það er lengra bil á milli en við höfum gert ráð fyrir og þess vegna er niðurstaðan þessi sem hún er í bili.

Vonandi tekst að koma málinu aftur í þann jákvæða farveg sem ég taldi að það hefði verið í þannig að við getum lokið því og eytt allri óvissu á báða bóga fyrir alla hlutaðeigandi aðila eins og æskilegast er í málum sem þessum.