132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:37]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Þegar fréttir bárust um þróun viðræðna við bandarísk stjórnvöld um framtíð varnarsamningsins og varnarliðsins hér á landi bað ég strax um utandagskrárumræðu til að ræða þetta alvarlega mál og ég þykist nú vita að meiri tími gefist við þær umræður til að ræða þetta efnislega betur heldur en hægt er að gera hér á þeim stutta tíma sem ætlaður er. Ég vona þá að hæstv. utanríkisráðherra verði betur í stakk búinn til að svara þeim spurningum sem hafa vaknað í framhaldi af þeim fréttum sem við höfum heyrt.

Ég hef úr þessum stól oftar en einu sinni og oftar en tvisvar spurt þáverandi hæstv. utanríkisráðherra hvernig miði í viðræðum við Bandaríkjamenn og það síðasta sem ég vissi var að þetta væri komið í formlegan farveg, þetta væri komið á forræði utanríkisráðuneytisins og samningaviðræður væru hafnar. Því kom mér mjög á óvart þegar ég las í Morgunblaðinu í morgun haft eftir Alberti Jónssyni sendiherra eftirfarandi. Þar segir Albert, með leyfi forseta:

„Þetta er enn þá alveg á fyrstu stigum. Þetta er ekki komið á það stig að við getum talað um að efnislegar samningaviðræður séu hafnar.“

Nú er ég hættur að skilja. Svör úr þessum stól við spurningum um hvernig þessum málum miði hafa verið á þann veg að þetta sé í formlegu viðræðuferli, samningaviðræður eigi sér stað milli bandarískra stjórnvalda og íslenskra stjórnvalda um málið. Því hlýtur maður að spyrja þegar maður les svona lagað haft eftir þeim sem leiðir sendinefnd okkar vestur um haf, sem hættir síðan við að eiga fund með bandarískum stjórnvöldum, að samningaviðræður séu í raun ekki hafnar, hvort það sé raunin, hvort okkur hafi þá í raun ekki verið sagt satt úr þessum ræðustól að við ættum formlegar samningaviðræður við Bandaríkjamenn um framtíð varnarsamningsins og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt að við fáum svar við þeirri spurningu hér.