132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:39]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Þau tíðindi sem nú berast vegna viðræðna íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarsamningsins ýta vissulega undir þá skoðun sumra að þar hafi meiri óvissa ríkt um langa hríð en íslensk stjórnvöld hafa verið viljug til að viðurkenna. Ég bjóst reyndar við því, frú forseti, strax og ég heyrði þessar fréttir að boð kæmu um að funda ætti í hv. utanríkismálanefnd og fjalla um þessi nýju tíðindi þar. Það boð hefur ekki borist en ég á von á að það berist okkur eigi síðar en strax í dag.

Það sem hið háa Alþingi og hv. þingmenn þurfa að fá að vita er hvort efnislegar og formlegar viðræður séu hafnar og ef svo er ekki, um hvað snúast þau samtöl sem hafa átt sér stað á milli formanna samninganefndanna og hvers vegna fer hin efnislega umræða ekki fram? Er það vegna þess að fulltrúar íslenskra stjórnvalda vilja ekki taka á efnisatriðum eða er það vegna þess að fulltrúar bandarískra stjórnvalda vilja það ekki? Af fréttum að dæma virðist svo vera að það séu fulltrúar íslenskra stjórnvalda sem treysti sér ekki til að taka á efnisatriðum þessara samningaviðræðna og þá er helst þar að nefna kostnaðinn. Er það þá þannig, frú forseti, að sá verðmiði sem settur hefur verið á kostnaðinn við að reka flugvöllinn sé einfaldlega svo hár að íslensk stjórnvöld treysti sér ekki til að reka hann?