132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[10:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Margt af því sem hv. þingmaður, frummælandi hér í þessari umræðu, hefur haldið fram í þessum málum er virkilega góðra gjalda vert og ég get tekið undir margt af því sem hún segir. Auðvitað yrði lækkað matarverð umtalsverð kjarabót fyrir fjölskyldur í landinu. En mér finnst hins vegar oft og tíðum örla á þráhyggju hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar varðandi það sem þau kalla gjarnan Evrópuverð á matvælum því að ég sé ekki að það sé raunhæft að fjalla um það sem einhvers konar eitt staðlað fyrirbæri.

Mér finnst skipta verulegu máli að gengisstaðan, þ.e. sterk staða krónunnar, virðist ekki skila sér til neytenda. Mér finnst það umhugsunarefni fyrir okkur, þenslan og hið hrikalega magn af peningum í umferð virðist gera það að verkum að almenningur missir verðskyn og meðan allt selst, sama hvaða verð er sett á það, þá er spurning hvort verslunin finnur sig knúna til að lækka verð. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og mér finnst að við þurfum að gefa þessu gaum.

Svo er það annað sem þarf að skoða. Ég hef áhyggjur af þeirri óhollustu sem verið er að bjóða t.d. börnum upp á á fjölda heimila og veitingastaða. Mér finnst ýmislegt af því sem í boði er vera vafasamt í verslunum og nefni ég þá t.d. grænmeti og rifja upp hryllingsmynd sem sjónvarpið sýndi fyrir nokkrum missirum um eiturefnanotkun við grænmetis- og ávaxtaræktun á Spáni, vitandi það hversu mikið er flutt inn af grænmeti og ávöxtum frá Suður-Evrópu þar sem mikil eiturefnanotkun er.

Mér finnst því skipta verulegu máli að við tökum holla fæðið inn í umræðuna, við þurfum að lækka verð á því. Við þurfum að sjá til þess að lífrænir bændur á Íslandi fái sjálfstæðan, sérstakan stuðning, tímabundinn stuðning, til þess að þeir geti komið vel undir sig fótunum þannig að við tryggjum það að innlenda framleiðslan okkar verði (Forseti hringir.) sú hollasta sem hægt er að bjóða upp á.