132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:03]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér fer fram er mjög nauðsynleg vegna þess að þó að margvíslegur neysluvarningur sé óþarfur komumst við ekki af án þess að borða. Öll þurfum við að kaupa mat og því stærri sem fjölskyldurnar eru og þeim mun lægri sem tekjurnar eru þeim mun þyngra vegur matarverðið í útgjöldum heimilanna.

Þegar kemur að matvælaverði þurfum við Íslendingar auðvitað að bera okkur saman við Evrópubúa og sjá hvaða verði þeir kaupa sína matvöru og svo aftur við. En við þurfum auðvitað líka að bera okkur saman hér innbyrðis á Íslandi, þ.e. hvert er matvöruverðið á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hvert er verðið úti á landi þar sem samkeppni nýtur ekki við? Með þessu þurfum við auðvitað að fylgjast því að það er rétt sem hér kom fram að samkeppnin skiptir auðvitað verulegu máli eins og sést t.d. í vöruverði úti á landi. En það er auðvitað fleira sem þar kemur til, það eru flutningsgjöld, það eru álögur hins opinbera, það eru vörugjöld og tollar og fleira slíkt.

Ég held að aðgerðir hins opinbera í þessum málum skili sér. Við þurfum ekki annað en að horfa á grænmetisverðið, vísitölu grænmetisverðs. Hún var komin í 138 árið 1999 en er núna 98, þannig að þær aðgerðir sem gripið var til af hálfu opinberra aðila til þess að ná niður kostnaði á grænmeti hafa beinlínis skilað sér.

Það er ekki að öllu leyti rétt, sem hér hefur verið sagt, að engin tenging sé á milli þróunar gengis og innflutts matvöruverðs vegna þess að þar var vísitala matvöruverðs 132 árið 2001 og er núna 113. Það er því ákveðin tenging þar á milli þó að hún sveiflist kannski ekki alveg nákvæmlega með genginu og skili sér kannski aðeins seinna. En við þurfum að fylgjast vel með þessum hlutum, Samkeppnisstofnun þarf að vera virk í þessu og eins eru (Forseti hringir.) auðvitað aðgerðir hins opinbera til þess fallnar að lækka matarverð.