132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er engin ástæða til þess að tala illa um þá sem standa í verslun á Íslandi, (Gripið fram í.) ég held að það hafi enginn gert það í þessari umræðu. Hins vegar þurfa þeir aðhald eins og aðrir og það þarf að veita þeim aðhald. Umræða eins og þessi er mjög góð, hún veitir aðhald, sýnir að það er áhugi á málinu á hv. Alþingi, sem er gott.

Samkeppnisstofnun skiptir að sjálfsögðu sköpum í þessum málum. Ég sé nú ekki ástæðu til að treysta þeim sem standa í verslun algjörlega fyrir verðlaginu. Ég held að það sé líka mikilvægt að gerðar séu samanburðarkannanir. Samanburðarkannanir verkalýðshreyfingarinnar hafa verið mjög góðar. Almenningur getur lesið í blöðum nánast vikulega um slíkar kannanir sem hjálpa til við að auka verðskyn neytandans því að það er verðskyn neytandans sem er að sjálfsögðu langbesta tryggingin fyrir því að matarverð haldist í skefjum.

Ég tek undir það að grænmetið er ágætt dæmi um það sem vel heppnaðist í sambandi við matvælaverð. Við höfum tekið fullan þátt í því á alþjóðavettvangi að leita nýrra leiða í þessu sambandi, við gerum það á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Hv. þingmaður segir að við höfum engan áhuga á málinu og að við höfum ekki djörfung til þess að vaða í málið.

Þetta gerist ekki þannig. Við þurfum að ná samkomulagi, við þurfum að halda vel á okkar spilum í þessum harða heimi, sem er samkeppni milli þjóða, og það höfum við gert. En það er alveg ljóst, eins og hefur komið fram hér, að styrkveitingar til landbúnaðarins munu færast í þessa átt og ég er viss um að það verður neytendum til góðs.