132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:28]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er akkúrat kjarni málsins. Ég held að það sé meira en áhyggjuefni að það mundi halla verulega á stjórnarandstöðu hvers tíma. Ef við tökum þetta út fyrir þann tímaramma sem við lifum í núna þá væri ekki hægt að verja breytingu af þessu tagi í svona litlu þjóðþingi þar sem hún hefði svo mikil áhrif. Það eru einungis 63 þingmenn í þessu fámenna landi en slík breyting hefði mikil áhrif til ábata fyrir stjórnarflokkana á hverjum tíma á kostnað stjórnarandstöðunnar, réttkjörinnar stjórnarandstöðu í landinu. Það er því ekki hægt að verja breytingu af þessu tagi nema með því að vega á einhvern hátt upp á móti henni þannig að réttilega væri fram gengið.

Ég sé satt að segja ekki alveg hvernig á að gera það. Ég held að það sé ekki nóg að auka fjárveitingar og styrkja þar með starfsmannahald stjórnarandstöðuflokkanna þó að sú breyting og sú umgjörð væri vissulega góð og kæmi að einhverju leyti til móts við það. Þó að ég taki undir markmiðið og hafi samúð með málinu, hef ég um það efasemdir. Ég efast um að það gengi einfaldlega upp að þessu leyti hvað varðar stjórnarandstöðuna á hverjum tíma.

Ég hallast því að annarri leið til að efla þrígreiningu ríkisvaldsins en hún er sú að menn skoði það af fullri alvöru að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu. Um það var flutt þingmál fyrir 22 árum af Vilmundi heitnum Gylfasyni, þá þingmanni Alþýðuflokksins. Hann flutti það sem 1. þingmál Bandalags jafnaðarmanna, sem þá var í pípunum að stofna. Lagt var til að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu og þar útfærir hann það ágætlega. Ég held að menn ættu að skoða það og taka það upp í stjórnarskrárnefndinni hvort það væri raunhæfur kostur að ná hér raunverulegri þrígreiningu ríkisvaldsins — fyrir utan það nú að gera landið að einu kjördæmi og ná þannig sanngirni í þau mál — með því að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu þannig að þrígreining ríkisvaldsins væri algjör og raunveruleg en ekki bara til málamynda og óraunveruleg eins og hún er á Íslandi núna. Við verðum að finna leiðir til að efla þrígreiningu ríkisvaldsins.