132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að frumvarp þetta skapi mjög góða umræðu sem eigi að fara fram um leikreglur lýðræðisins. Ég hef vissar efasemdir um frumvarpið og það er vegna þess halla sem skapast hjá stjórnarandstöðunni þegar 12 nýir þingmenn koma inn en ég heyri á máli frummælanda að hún hefur að einhverju leyti hugsað fyrir þeim halla. Ég sló á að það mundi kosta u.þ.b. 200 milljónir að jafna leikinn. Er það eitthvað nálægt þeim útreikningum sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur gert? Aðstöðumunurinn hjá stjórnarflokkum og stjórnarandstöðuflokkum er mjög mikill og ég tel að áður en við færum út í að gera hann enn meiri væri kannski réttara að leiðrétta þann mun sem nú er. Við sjáum að ráðuneytin vinna oft á mjög gráu svæði hvað varðar flokkspólitíska vinnu í ýmsum málum. Þangað eru ráðnir ekki endilega embættismenn heldur einnig aðstoðarmenn og svo má sjá mjög flokkspólitískar ráðningar í margar stöður. Þetta sjá allir. Við eigum að viðurkenna þetta og jafna leikinn og hugsa fyrir því áður en við gerum hann ójafnari eins og staðan er nú.