132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði verið fróðlegt að fá skýr svör hjá hv. þingmanni um hvort ekki væri rétt að fara yfir stöðuna eins og hún er og þann aðstöðumun sem er vissulega fyrir hendi milli stjórnar og stjórnarandstöðu og hvort ekki ætti að jafna hann áður en komið er með frumvarp til að gera stöðuna enn þá ójafnari. Ég tel það vera nauðsynlegt fyrir lýðræðið vegna þess að stjórnarandstaðan gegnir mjög mikilvægu hlutverki í að rýna stjórnarfrumvörp. Oft er það hlutverk stjórnarliða að reyna að greiða leið frumvarpa í gegn og skoða þau ekki með mjög gagnrýnum hætti í nefndum þingsins. Það verður að segjast eins og er þó svo að þar sé vissulega undantekning á. En oftar en ekki er það sérstakt hlutverk stjórnarandstöðunnar að rýna og fara rækilega í gegnum stjórnarfrumvörp og því skiptir mjög miklu máli að þessi aðstöðumunur sé jafnaður. Ég tel mjög nauðsynlegt að jafna þann mun áður en við gerum hann enn ójafnari og væri fróðlegt að fá að heyra hvort hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sé tilbúin að fara yfir þau mál.