132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:40]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að borgarinn sé varinn fyrir ofurvaldi ríkisins. Fram komu kenningar fyrr á öldum, fyrir 2–3 öldum, um að slíkt yrði best gert með því að skipta ríkisvaldinu í þrennt, framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald, og að þessar einingar ríkisvaldsins væru óháðar en þannig væri borgarinn best tryggður fyrir ofurvaldinu. Ekki hafa komið fram betri kenningar að mati bestu manna í því efni.

Við Íslendingar brjótum þessa reglu nokkuð víða, t.d. með því sem hér er verið að ræða, að sami maður getur verið bæði framkvæmdarmegin sem ráðherra og löggjafarmegin sem þingmaður. Þá erum við með embætti forseta Íslands sem bæði er framkvæmdarmegin með því að hann skipar í æðstu embætti framkvæmdarvaldsins og löggjafarmegin með því að honum ber að undirrita lög. Reyndar er spurning um hversu valdamikill hann er. Það er svo aftur spurning sem menn geta deilt um.

Loks erum við með þau vinnubrögð sem ekki eru bundin í lög að Alþingi vasast í alls konar framkvæmdum í fjárlagafrumvarpinu þar sem fjárlaganefnd Alþingis tekur afstöðu til og leggur í alls konar framkvæmdir, eins og að byggja brýr og vegi og því um líkt. Meira að segja hafa sumir þingmenn litið á það sem meginmarkmið sitt á löggjafarsamkundunni að standa í slíkum framkvæmdum fyrir kjördæmi sitt. En slíkt gerir það að verkum að þeir eru bæði í löggjafarsamkundunni og framkvæmdarvaldinu. Alþingi er að byggja torfkofa á Grænlandi og alls konar, t.d. að rækta hinn fræga fíkniefnahund í Vestmannaeyjum sem er tillaga frá Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í.) Að standa í hundauppeldi í Vestmannaeyjum, Alþingi hefur fíkniefnahund þar í uppeldi.

Og svo það sem kannski er verst að flestöll frumvörp sem Alþingi samþykkir eru ekki samin af alþingismönnum. Þau eru samin af ráðuneytunum, þ.e. framkvæmdarvaldinu, og jafnvel af þeim stofnunum sem standa í framkvæmdinni, skattyfirvöldum og samkeppnisyfirvöldum og slíkum. Auðvitað liggur þekkingin þar en það er mjög hættulegt ef sérfræðingarnir sem þekkja best til fá það vald að smíða vopnin í hendurnar á sjálfum sér í baráttunni við borgarana. Það er mjög varasamt þó að þekkingin liggi þar.

Þess vegna vil ég að menn hugleiði það alvarlega að Alþingi taki að sér meira frumkvæði í lagasetningu, þ.e. samningu lagafrumvarpa, og eins að Alþingi hætti að skipta sér af framkvæmdinni því að framkvæmd sem Alþingi hefur ákveðið getur það ekki gagnrýnt. Eftirlitið með þeirri framkvæmd er horfið, það er enginn eftirlitsaðili. Alþingi ber að fela framkvæmdarvaldinu ákveðnar framkvæmdir og veita því fjárveitingu en síðan á framkvæmdarvaldið að svara fyrir Alþingi um framkvæmdina. Það er að sjálfsögðu ekki hægt þegar Alþingi sjálft ákveður framkvæmdina eins og með fíkniefnahundinn. Það getur enginn gagnrýnt það fyrirbæri.

Málið sem við ræðum hér, um að þingmenn séu ekki jafnframt ráðherrar eða að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn, er hluti af þessum vanda sem verið er að taka á. Ég er meðflutningsmaður í málinu og tek hjartanlega undir það. Ég vil hins vegar að þingmönnum sé fækkað um 12. Af hverju? Vegna þess að ekkert breytist við það. Ráðherrar starfa ekki í þingnefndum, ráðherrar eru ekki í utanlandssamstarfi þingsins. Það mundi ekkert breytast, nákvæmlega sami fjöldi þingmanna ynni þessi mál í nefndum, í umræðum á þinginu og í utanlandssamstarfinu. Það eina sem breyttist væri að þingmönnum fækkaði um 12. Kostnaðurinn mundi minnka eitthvað við það og að sjálfsögðu þyrfti að hækka laun ráðherranna þar sem þingfararkaupið dettur niður hjá þeim.

Ég styð þetta mál og alveg sérstaklega með hliðsjón af því að verja borgarana fyrir löggjafarvaldinu.

Í andsvörum hafa nokkrir hv. stjórnarandstæðingar sagt að þetta muni breyta samsetningu á þinginu. Ég vil minna þá á að enda þótt það sé frekar vonlítið að þeir komist einhvern tíma í stjórn verður það kannski ekki alveg vonlaust eftir svona 20–30 ár. (Gripið fram í: Eftir eitt og hálft ár.)