132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Örfá orð um þetta mikilvæga málefni og ég tek undir það með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að það er mjög gagnlegt að fá þessa umræðu fram. Það var talað um að flokkar hefðu tekið afstöðu til þess og svo er eflaust í einhverjum tilvikum. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst þverpólitískt mál. Ég tala fyrst og fremst fyrir sjálfan mig en ekki fyrir hóp manna.

Ég er mjög andvígur málinu. Ég tel að við þær aðstæður sem við búum við sé þetta ekki heppileg leið til að ná því ágæta markmiði sem hér er tíundað, að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég tel þetta ómarkvissa og mjög dýra leið til að ná því markmiði og vil fara aðrar leiðir í því efni.

Í fyrsta lagi hefur verið á það bent að það dragi úr vægi stjórnarandstöðu á þingi við þessar breytingar nema það gerist að kallaðir verði til nýir þingmenn. Þar erum við komin að þessum stóraukna kostnaði. Ég skildi hins vegar á öðrum flutningsmanni, hv. þm. Pétri H. Blöndal, að hann vildi fækka almennt í þinginu. Þá sitjum við eftir með þann vanda að vægi stjórnar hefur aukist á kostnað stjórnarandstöðu og þaðan hefur komið eftirlitið og aðhaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu, það er bara staðreynd.

Staðreyndin er nefnilega sú að þegar um það er að ræða að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu þá er það vissulega spurning um skipulag að einhverju leyti en ekki síður spurning um hugarfar, spurning um afstöðu og hugarfar. Mér hefur þótt mjög slæmt að horfa upp á hvernig þingmönnum í stjórnarmeirihluta hefur iðulega verið þröngvað til að fylgja meirihlutalínunni, fylgja því sem stjórnarmeirihlutinn boðar. Mér hefur þótt slæmt að horfa upp á þetta gerast, ekki síst með unga þingmenn sem eru að koma hingað inn, iðulega fullir af hugsjónum, og þurfa að láta þær víkja fyrir þessum þrýstingi. Ég held að það væri miklu betur komið fyrir okkur og lýðræðislega heppilegra að menn færu stundum hægar í sakirnar í umdeildum málum og stuðluðu að því að fólk fylgdi sinni sannfæringu. Ég held að það sé að nokkru leyti spurning um hugarfar.

En þetta er líka spurning um skipulag og ég tek undir þann þátt í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan að það ber að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu varðandi lagasmíð og annað af því tagi. Ég hefði talið og tel að fjármunum sem yrði varið til þessa væri betur varið með því að styrkja stoðkerfið, sérfræðingavinnu á vegum þingsins þannig að þingmenn ættu greiðari aðgang að upplýsingum og sérfræðivinnu og smíði lagafrumvarpa, styrkja með öðrum orðum þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu að þessu leyti. Ég tel það miklu heppilegri leið.

En ég endurtek að þessi umræða er mjög góð. Ég er ósammála þeirri leið sem hér er lögð til til þess að ná mjög eftirsóknarverðu markmiði.