132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Ég er hér að skírskota til stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún hefur verið sett fram. Að sjálfsögðu eru það önnur málefni sem við leggjum ríka áherslu á. Við viljum jöfnuð í samfélaginu. Við erum með ýmsar hugmyndir um hvernig eigi að ná því markmiði fram og erum til viðræðu um leiðir að því marki. En þetta er að sjálfsögðu grundvallaratriði í okkar stefnu og í okkar hugsjón og af henni munum við alls ekki slá, það munum við ekki gera. En við erum reiðubúin að ræða leiðir að því marki að sjálfsögðu.

Ég eiginlega skil ekki þetta tal um það hvort við erum tæk til stjórnarsamstarfs. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og fulltrúar hennar hafa verið í stjórnarsamstarfi við aðra flokka hér í Reykjavík, í Skagafirði og á margvíslegum vettvangi. Við höfum tekið þátt í starfi nefnda hér í þinginu. Er hv. þingmaður að halda því fram að við séum ekki tæk til umræðu og til samstarfs á slíkum vettvangi umfram aðra flokka? Ég ætla ekki að leggja þetta út á slæman veg, ég ætla að taka þessu á jákvæðan hátt og líta svo á að þingmaðurinn sé í rauninni að hrósa okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fyrir staðfestu okkar og fylgispekt við okkar hugsjónir.