132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

31. mál
[12:22]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Almennt tel ég það ekki vera vandamál að íslenskt launafólk hafi of há laun, það hefur allt of lág laun. Hins vegar er það vandi hve þeir sem hafa aðstöðu til, sjálftökufólkið, klóra mikið niður í sína eigin vasa. En þegar kemur að fjármagnstekjum er það svo að meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu er af fjármagnstekjum. Við erum að ræða um að það fólk borgi til samfélagsins eins og aðrir.

Fjármagnstekjur eru í eðli sínu frábrugðnar launatekjum, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Að hluta til er það rétt, að hluta til ekki. Ekki finnst þeim sem aka um í stóru, fínu bílunum og lifa munaðarlífi neitt abstrakt við þessar tekjur. Þeir snúa þessum peningum og verðmætum yfir í lúxus af því tagi. Sú er staðreynd málsins.

Hv. þingmaður dregur upp glansmynd af íslensku samfélagi. Við lesum um það í útgefnum skýrslum að það stefnir í að verða í hópi þeirra þjóðfélaga í heiminum þar sem misskipting er allra mest. Við lesum um það í fjölmiðlum að svo sé komið fyrir öldruðu fólki, lágtekjufólki og öryrkjum að það eigi varla fyrir mat. Svo leyfir hv. þm. Pétur H. Blöndal sér að koma upp í pontu og tala til þessa fólks með þessum hætti.