132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

14. mál
[12:48]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum. Ég tel þetta mjög brýnt mál og alveg sérstaklega vegna þeirra talna sem við heyrum um brottfall í landinu sem eru allt að því skelfilegar. Talað er um 40% í könnun frá 2002, það gæti reyndar hafa lagast eitthvað en jafnvel þótt það hefði lagast væri enn þá slæm staða.

Í hvert skipti sem nemandi hættir námi verður ákveðin brotlending. Hann þarf að horfast í augu við að hann stenst ekki þá kröfu sem hann sjálfur og aðrir gera til hans og hann býr við minna sjálfstraust í lengri tíma á eftir, starfsævi hans styttist sem þessu nemur og þetta er mikill persónulegur áfellir og tap líka. — Eitt sem gleymist oft í námi er að nám er fjárfesting. Það er annars vegar fjárfesting af hendi ríkisins sem leggur fram byggingar, mannskap og þekkingu til að kenna og hins vegar fjárfesting af hendi námsmannsins sjálfs sem er miklu meiri því að hann vinnur kauplaust og fórnar tekjum sem hann gæti haft annars staðar og starfsframa sem hann gæti aflað sér á sama tíma. Sá kostnaður er örugglega 1,5–2 milljónir að lágmarki á hvern nemanda á ári. — Fyrir samfélagið er það líka tap vegna þess að búið er að leggja í fjárfestingu til að kenna þessum nemanda, ætla má að það kosti 2 milljónir fyrir ríkissjóð eða rúmlega það að kenna einum nemanda í fjögur ár í framhaldsskóla. Þegar nemandi hættir í miðjum klíðum og öll kennsla fer í vaskinn og allt það starf er það raunverulegt tap fyrir samfélagið. Samanlagt er það því mikið tap bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið þegar menn hætta í skóla og það verður brottfall.

Hér er lagt til að auka náms- og starfsráðgjöf. Ég mundi raunar ekki kalla það náms- og starfsráðgjöf heldur fjárfestingarráðgjöf því verið að ráðleggja unga manninum eða ungu stúlkunni hvernig þau eigi að fjárfesta í námi. Ég hugsa að það mundi líta dálítið öðruvísi út ef þetta yrði gert þannig og með þá hugsun í huga að nemandinn sé í rauninni að fórna vinnutíma kauplaust o.s.frv.

Önnur atriði þyrfti líka að skoða. Af hverju leiðist krökkum í skóla, af hverju líður þeim illa eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á? Það er hlutur sem þyrfti ekki síður að skoða en það sem hér er lagt til. Hvers vegna vantar „motivation“ eða hvatningu í skólunum, af hverju eru krakkarnir ekki áhugasamari um að læra? Þetta allt finnst mér þurfa að skoða. Það er spurning hvort framhaldsskólinn eigi að gera samning við hvern einasta nemanda, skólinn lofi að veita honum kennslu í fjögur ár og nemandinn lofi að stunda námið og klára það. Slíkur samningur gæti hugsanlega veitt ákveðið aðhald.

Ég held að hv. menntamálanefnd, sem fær málið til skoðunar, ætti að hugleiða mjög vel hvort ekki mætti jafnvel breyta nafni tillögunnar þannig að hún heiti tillaga til þingsályktunar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum og aðgerðir til að koma í veg fyrir brottfall, þannig að meginþunginn sé á það fyrirbæri sem er brottfall. Að öðru leyti lýsi ég stuðningi við málið.