132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er kannski ekki nægilega góður svipur á því í sjálfu sér að þurfa að taka mál af þessu tagi til umfjöllunar úr þessum ræðustól. Ég hefði auðvitað óskað þess að við gætum leyst ágreiningsmál af þessu tagi í þeim farvegi sem við þingmenn höfum til að ræða innri störf þingsins og stjórnsýslu þingsins. Það lýsir kannski því að við þurfum að skoða samskipti okkar hér innan dyra varðandi innri stjórnsýslu löggjafarsamkundunnar og hvernig þau virka. Eflaust má finna þar ákveðna þætti sem betur mættu fara.

Ákvörðun af því tagi sem hér er til umfjöllunar hefði örugglega mátt taka á annan hátt en gert var, að betur athuguðu máli, með meiri samvinnu manna á milli og milli stjórnmálaflokka. Þá þyrftum við ekki að standa í þeim sporum sem við stöndum í núna, með ályktanir frá félagi fræðarithöfunda og ályktanir frá Sagnfræðingafélagi Íslands þar sem þessi ákvörðun er átalin. Við fáum ákúrur fyrir að hafa staðið að málum eins og gert var. Þannig hefur stjórn Hagþenkis, Félags höfunda fræðirita og kennslugagna, mótmælt þessari ráðstöfun forsætisnefndar. Ég verð að segja að ég finn í hjarta mínu mikinn samhljóm með þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. En þar er eingöngu talað um að fræðirithöfundum og fræðimönnum sem hafa starf af því að rita bækur á borð við þá sem nú skal rituð skuli hunsaðir og ekki leitað til þeirra, fyrstra manna, þegar annast þarf verk af því tagi sem hér um ræðir.

Mig langar líka, varðandi kostnað við þetta rit, að geta þess að nú er Menningarsjóður okkar fjarri góðu gamni. Sá sjóður hefði auðvitað getað fjármagnað rit af þessu tagi. Ég vil nefna það að Launasjóður fræðihöfunda fær samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs eingöngu 11,4 millj. kr. Halda menn að það muni nægja fyrir þessu riti?