132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:00]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það felst mikil ábyrgð í því að fara með ákæruvald. Ákærandi getur með ákvörðunum sínum valdið einstaklingum og fyrirtækjum miklu tjóni og sársauka. Á sama hátt er mikilvægt að ákært sé í tilvikum þegar rétt er að gefa út ákærur. Meðferð ákæruvalds skiptir sköpum þegar kemur að trausti almennings á réttarvörslukerfinu.

Skipulag íslenska kerfisins, þ.e. ákæruvald ríkislögreglustjóra í efnahagsbrotamálum, og sú framkvæmd sem hér ríkir á sér ekki hliðstæðu í öðrum löndum að ég best veit. Fyrirkomulagið er að einhverju leyti að norskri og norrænni fyrirmynd en þar eru miklu skýrari línur milli þeirra sem rannsaka mál og þeirra sem gefa út ákærur.

Lögmannafélag Íslands galt mikinn varhug við því að þessi leið yrði farin hér á landi. Félagið taldi mikla hættu á slysum ef leitt yrði í lög að sami aðili stjórnaði rannsókn og gæfi út ákæru. Undir þetta tók meiri hluti allsherjarnefndar þegar málið var hér til umfjöllunar.

Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji tilefni til þess að breyta frá núverandi framkvæmd. Stærsti hluti útgefinna ákæra leiðir til sakfellingar. Ástæðan er einföld. Lög kveða skýrt á um að ekki skuli gefin út ákæra nema líklegt sé að hún leiði til sakfellingar. Mörg mál sem upp koma eru sem betur fer einföld auk þess sem í mörgum málum liggja fyrir játningar sakborninga þegar ákæra er gefin út.

Það er ekki aðeins þetta sem veldur mönnum áhyggjum. Þær lúta frekar að getu og hæfni ríkislögreglustjóra til að fara með ákæruvald í stórum og flóknum málum. Dæmin eru til staðar. Má þar nefna svokölluð málverkafölsunarmál, málefni frjálsrar fjölmiðlunar, brot sem fyrntust í grænmetismáli í höndum embættisins, auk þess má nefna svokallað endurskoðendamál og nú síðast Baugsmál. Fleiri mál má nefna þó það verði ekki gert hér. Aðalatriðið er að í stórum og alvarlegum málum hefur ríkislögreglustjóri beðið faglegt skipbrot. Útreiðin sem ríkislögreglustjóri fékk í dómi Hæstaréttar í Baugsmálinu er reyndar einsdæmi í íslenskri réttarsögu. Við sem teljum markaðskerfið skynsamlegt fyrirkomulag og viljum tryggja að eftirlit með markaðnum sé öflugt teljum mikilvægt að stofnanir sem sinna þessu eftirliti séu öflugar. Við viljum tryggja að þeir sem fremja svokölluð efnahagsbrot, á stundum nefnd hvítflibbabrot, komist ekki upp með það vegna getuleysis opinberra stofnana. Þar liggur hin pólitíska ábyrgð ráðherrans. Það er því ekki að undra að menn hafi af því miklar áhyggjur að alvarlegasta svikamál síðari tíma, svokallað olíumál, skuli vera til meðferðar hjá ríkislögreglustjóra.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji eitthvað það hafa komið upp sem gefi tilefni til þess að ríkislögreglustjóri verði látinn á einhvern hátt bera ábyrgð á niðurstöðum þessara stóru og flóknu mála sem hafa misfarist. Í ljósi þess að ríkissaksóknari hefur sagt sig frá meðferð svokallaðs Baugsmáls eftir að Hæstiréttur vísaði 32 ákæruliðum þess máls frá dómi vakna spurningar um hvort rétt sé að núverandi hæstv. dómsmálaráðherra eigi að skipa nýjan saksóknara eða hvort rétt sé að skipa sérstakan seturáðherra til þess að taka þá ákvörðun, þ.e. til þess að fara með málið.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að fara eigi varlega í að telja ráðherra vanhæfa vegna yfirlýsinga þeirra. Ráðherrar eru stjórnmálamenn. Hlutverk þeirra er að taka þátt í umræðu samfélagsins. Ég tel því ekki sjálfgefið, þrátt fyrir óyfirvegaðar og vanstilltar yfirlýsingar hæstv. dómsmálaráðherra um ákærðu í Baugsmálinu, að hann sé vanhæfur.

Á hinn bóginn viðurkenni ég að ég tel það afar óheppilegt fyrir framhald málsins að hæstv. dómsmálaráðherra skipi sérstakan saksóknara. Það gerði frekari meðferð erfiða, jafnvel ótrúverðuga, og gerir og gerði nýjum saksóknara augljóslega erfitt um vik. Ég hef ekki trú á því að vilji ráðherra standi til þess. Dómsmálaráðherra hlýtur að vera sammála mér um að vanda þurfi sérstaklega allar frekari aðgerðir yfirvalda í þessu máli svo málið fái rétta niðurstöðu.

Spurning mín til hæstv. dómsmálaráðherra er því sú hvort hann telji rétt að víkja sæti þegar kemur að því að fjalla um og skipa nýjan saksóknara til að halda áfram með málið.