132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:12]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að niðurstaða Hæstaréttar í Baugsmálinu hafi verið áfellisdómur yfir ákæruvaldinu og ég er líka þeirrar skoðunar að þetta gefi vissulega tilefni til að huga að breytingum á skipulagi ákæruvaldsins í efnahagsbrotamálum. Mér finnst þetta gefa tilefni til að huga að því hvort ekki sé eðlilegra til að tryggja fulla hlutlægni, til að tryggja fjarlægð við lögreglurannsóknina, fjarlægð milli lögreglurannsóknar og ákæruvaldsins, að þetta sé aðskilið, að við tryggjum að það sé ekki sami maðurinn sem stýrir lögreglurannsókn og fari með ákæruvald. Og hvað sem líður erlendum fyrirmyndum á þessu sviði þá er, vegna smæðar samfélagsins hér og vegna smæðar viðkomandi deildar, fullt tilefni til að við gefum þessu sérstakan gaum. Við höfum áður gert breytingar á ákæruvaldinu þar sem hefur verið skipaður sérstakur saksóknari í tilteknum málaflokkum. Það fyrirkomulag hefur verið tekið til baka og ég held að það felist engir stórir dómar í því þó að við viðurkennum að þetta kallar á það að að þessu skipulagi sé hugað og að breytingum á því.

Hvað varðar hæfi hæstv. dómsmálaráðherra til að skipa sérstakan saksóknara eftir að ríkissaksóknari hefur sagt sig frá því þá vil ég, frú forseti, öðru fremur leggja áherslu á að þetta er eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra sjálfur hlýtur að huga mjög alvarlega í ljósi ummæla sinna um málið. Ég ætla ekki að gerast neinn dómari um hæfi hans til þess og tek að miklu leyti undir sjónarmið málshefjanda. Ráðherra verður að hafa ákveðið frelsi til að tjá sig pólitískt um mál. En hins vegar verður hæstv. dómsmálaráðherra að gæta þess að gefa ekkert tilefni til þess að óhlutdrægni hans sé dregin í efa. Það er inntakið í hæfisreglum, jafnt innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólunum, og almenningur á rétt á því að geta borið ótakmarkað traust til sjálfstæðra og óháðra dómstóla.

Að öðru leyti vil ég, frú forseti, fagna því hvað þessi umræða er hófstillt og málefnaleg í alla staði.